Alþjóðleg rannsókn á Vesturöræfum

Á Vesturöræfum, vestan Snæfells og austan Jöklu, eru að hefjast rannsóknir á áhrifum ólíkra grasbíta á vistkerfið sem eru hluti af alþjóðlegu samstarfsverkefni.

Isabel C. Barrio, deildarforseti í Landbúnaðarháskóla Íslands fer fyrir verkefninu sem ber heitið: „Herbivores in the tundra: linking diversity and fuction (TUNDRAsalad)“ en á íslensku kallað: „Grasbítar á norðlægum slóðum: tengsl fjölbreytni og starfsemi.“ Landbúnaðarháskóli Íslands vinnur að rannsókninni ásamt Háskóla Íslands en verkefnið hlaut á árinu 20,5 milljónir í styrk frá Rannís.


Rannsóknin felur í sér að rannsakað er hvaða áhrif mismunandi grasbítar hafa á vistkerfið á Íslandi. Til að greina á milli áhrifa stórra og meðalstórra grasbíta verða settar upp girðingar af mismunandi gerð, annars vegar girðingar sem útiloka allar tegundir grasbíta, hins vegar girðingar sem útiloka aðeins hreindýr og sauðfé. Ástæða þess að Vesturöræfi urðu fyrir valinu segir Isabel að á Íslandi sé almennt ekki fjölbreytt fána grasbíta á sama svæði, en á Vesturöræfum sé að finna á frekar afmörkuðu svæði hreindýr, heiðagæs, rjúpu og sauðfé. Niðurstöðurnar munu veita upplýsingar um hvernig megi best stjórna beit og vernda beitilönd gegn ofnýtingu gróðurs. Góð beitarstjórnun er sögð mjög mikilvæg í ljósi hraðra breytinga loftslags á norðlægum slóðum og áhrifa þeirra á gróður og dýrastofna sem nýta hann.


Nýverið veitti umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings rannsakendum leyfi til að reisa girðingar vegna rannsóknarinnar á Vesturöræfum. „Við setjum niður girðingarnar í haust en rannsóknin hefst næsta sumar og mun standa yfir í þrjú ár. Þetta er áhugavert verkefni og á þessu svæði eru að eiga sér stað breytingar eins og t.d. að sauðfé fer fækkandi á meðan heiðagæsum fjölgar. Við munum m.a. rannsaka hvaða áhrif sú breyting mun hafa í för með sér,“ segir Isabel Barrio.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.