Álverssamningurinn samþykktur
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. sep 2025 15:56 • Uppfært 30. sep 2025 15:57
Meirihluti þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning AFLs Starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands við Alcoa Fjarðaál samþykktu samninginn. Hann var þó langt í frá óumdeildur.
Atkvæðagreiðslunni lauk klukkan þrjú. Á kjörskrá var 501 félagi. Þar af greiddu 337 eða 67% atkvæði. Já sögðu 61,4% en nei 36,6%. Auðir seðlar og ógildir voru 3%. Samningurinn telst því samþykktur.
Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. mars í ár til loka febrúar 2029. Upphafshækkun samningsins er 5,97% og launahækkanir á samningstíma eru þannig að árið 2026 verður hækkun að lágmarki 4,6%, auk viðmiðunar við launavísitölu, árið 2027 verður lágmarkshækkun 4,4%, auk viðmiðunar við launavísitölu. Árið 2028 verður 4,2% lágmarkshækkun, auk viðmiðunar við launavísitölu.
Auk þess var samið um hækkun á yfirvinnuprósentu. Desember- og orlofsuppbætur taka sömu hækkunum og laun. Vinnutími styttist um það sem nemur einum vinnudegi á ári, til viðbótar við fyrri vinnutímastyttingar, samkvæmt frétt frá AFLi um innihald samningsins.