Árétta mikilvægi sóttvarna í vetrarfríum
Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands hvetur þá sem hyggja á ferðir í sumarbústaði í öðrum landshlutum í vetrarfríum skóla að huga sérstaklega að smitvörnum vegna Covid-19 faraldursins.Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnarinnar í dag.
Þar segir að vegna vetrarfría megi búast við að talsverður fjöldi íbúa úr öðrum landshlutum leggi leið sína í sumarhús á Austurlandi. Áður hefur aðgerðastjórnin hvatt Austfirðinga til að halda sig sem mest í fjórðungnum.
Vegna þessa er hvatt til aðgæslu, bæði heimamanna og gesta. Þar skipta mestu máli fjarlægðarmörk, notkun gríma, handþvottur og bera spritt á sneritfleti.
„Áskoranir okkar hér í fjórðungnum á COVID tímum hafa verið allskonar og síbreytilegar. Það mun ekki breytast á næstunni. Smitvarnir hafa hinsvegar að mestu verið hinar sömu frá byrjun samanber áréttingu hér að ofan. Höldum þeim vörnum uppi og tryggjum þannig áframhaldandi góða stöðu á Austurlandi,“ segir í tilkynningunni.
Enginn er með virkt smit á Austurlandi en þrír einstaklingar í sóttkví.