Atvinnuleysi eykst á Austurlandi
Atvinnuleysi á Austurlandi hefur aukist um ein 20% á rúmu ári. Verst er staðan meðal iðnaðarmanna. Hlutfall atvinnulausra á svæðinu er samt lægra en gengur og gerist á landinu.
Þetta kemur fram í tölum frá Vinnumálastofnun. Atvinnuleysi á Austurlandi var í lok nóvember síðastliðins skráð 4,8% en var 3,6% á sama tíma í fyrra. Mest varð atvinnuleysið á þessu ári í mars, 5,8% en það minnkaði í sumar og haust.
Miðað við tölur Vinnumálastofnunar virðist aukningin fyrst og fremst vera í hópi iðnaðarmanna. Erlendum ríkisborgurum í hópi atvinnulausra hefur einnig fjölgað verulega.
Atvinnuleysið á Austurlandi er meira meðal kvenna, 6,2%, sem er aukning upp á rúmt prósentustig en 3,9% meðal karla. Sú aukning er upp á hálft prósentustig.
Ástandið eystra er samt skárra en gerist víða á landinu. Atvinnuleysi á landinu í lok nóvember var 7,7%, 8,1% hjá körlum og 7,2% hjá konum. Þar munar mest um tæplega 13% atvinnuleysi á Suðurnesjum og ríflega 8% atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu.