Skip to main content
Skemmtiferðaskip á Borgarfirði. Mynd: GG

Atvinnuvegaráðherra ekki á því að fella innviðagjald skemmtiferðaskipa niður

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. okt 2025 09:50Uppfært 28. okt 2025 09:50

Hanna Katrín Friðriksdóttir, atvinnuvegaráðherra, telur ekki rétt að fella með öllu niður áformað innviðagjald á skemmtiferðaskip. Hins vegar verði að tryggja aukinn fyrirsjáanleika og það hafi ríkisstjórnin reynt með afslætti á næsta ári.

Austurfrétt greindi frá því nýverið að innviðagjald á stærri skemmtiferðaskip og afnám tollfrelsis á minni skemmtiferðaskip, oft kölluð leiðangursskip, sé ástæða þess að útlit er fyrir verulegan samdrátt í komum skemmtiferðaskipa í hafnir Múlaþings á næstu tveimur árum.

Fyrri ríkisstjórn samþykkti í fyrra að leggja á 2.500 króna gjald en núverandi ríkisstjórn hefur boðað 500 króna afslátt á næsta ári. Með því er reynt að koma til móts við útgerðir skipanna sem bóka og selja ferðir 2-4 ár fram í tímann og hafa því kvartað yfir að gjaldið beri brátt að.

Ríkissjóður fær 1,2 milljarða

Eiríkur S. Svavarsson, varaþingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi, ræddi gjaldið við Hönnu Katrínu á Alþingi á fimmtudag. Hann vísaði til áhrifa á hafnir eins og Borgarfjörð, Seyðisfjörð og Djúpavog en líka til þess að tekjurnar af skipunum og farþegum þeirra fari víða um hagkerfið.

Hann lýsti því að rétt væri að leggja gjaldið af, því áætlaðar tekjur ríkissjóðs væru 1,2 milljarðar. Það væru litlar tekjur fyrir ríkið en gjaldið gæti haft mikil áhrif á ferðaþjónustu, efnahag og atvinnu í fjölda byggðarlaga.

Telur mikilvægt að gæta jafnræðis gagnvart gististöðum í landi

Hanna Katrín sagði ríkisstjórnina þegar hafa lagt fram 20% lækkun og kvaðst ekki setja sig upp á móti því ef Alþingi vildi lækka gjaldið enn frekar, að minnsta kosti tímabundið. Hún var hins vegar ekki á því að afnema það.

Hún sagði stærsta gallann hjá fyrri ríkisstjórn hafa verið hversu skammur tími væri ætlaður til að innleiða gjaldið. Lækkunin væri visst svar við því. Hins vegar þyrfti að skoða gjaldið í samhengi við aðra hluti. „Skemmtiferðaskip eru í samkeppni við hótel og aðra gististaði á landinu þannig að niðurfelling á þessu gjaldi tel ég að myndi skekkja samkeppnisstöðu,“ sagði Hanna Katrín.