Skip to main content

Aurskriða úr Búlandstindi lokar veginum við Djúpavog

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. feb 2025 12:43Uppfært 01. feb 2025 12:44

Unnið er að því að moka í burtu aurskriðum sem féllu úr Búlandstindi og niður á veginn í Berufirði í nótt. Hringvegurinn er lokaður milli Djúpavogs og Stöðvarfjarðar vegna hættu á ofanflóðum.


„Skriðan kom niður á stað þar sem áður hefur fallið skriða, rétt innan við Búlandsá,“ segir Eiður Ragnarsson, fulltrúi sveitarstjóra Múlaþings á Djúpavogi.

Um er að ræða 3-4 skriður sem ná alls í um 80 metra breidd á veginum. Verið er að moka skriðurnar í burtu og vonast til að vegurinn verði orðinn fær upp úr klukkan 13.

Samkvæmt Veðurstofunni hafa einnig fallið krapaflóð á svæðinu. Þá féllu þrjú krapaflóð í Stöðvarfirði og þrjú í Fáskrúðsfirði í nótt. Vegurinn milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar var opnaður um klukkan 12:30 en lokað er frá Stöðvarfirði suður að Djúpavogi.

Eiður segir að nokkuð hafi rignt á Djúpavogi í gærkvöldi og í nótt en síðan dregið verulega úr henni. Ekki hafi verið mikill snjór fyrir en hann sé nánast allur horfinn, utan ruðninga.

Óvissustig er um alla Austfirði vegna ofanflóðahættu. Lögreglan varar fólk við að vera á ferli nærri farvegum þar sem hætta er á krapaflóðum.

Mynd: Eiður Ragnarsson