Austfirsk vetrarævintýri vekja áhuga

Skíðaferðir um fjöll og heiðar Austurlands, auk skíðasvæða fjórðungsins, vekja mikinn áhuga íslenskra ferðalanga. Innlendir ferðamenn virðast hafa hrifist af svæðinu síðasta sumar og hafa áhuga á að kanna það betur.

„Það er mjög mikill áhugi. Fjarlægðirnar eru alltaf áskorun en hún getur líka falið í sér tækifæri,“ segir María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Nokkrir austfirskir ferðaþjónustuaðilar hafa síðustu vikur kynnt fjallaskíðaferðir sem farnar verða á næstunni. Óbyggðasetrið býður upp á sex daga gönguskíðaferð þar sem farið er úr Möðrudal yfir í Fljótsdal. Blábjörg á Borgarfirði hafa skipulagt þriggja daga ferð þar sem skíðað er um Dyrfjallasvæðið, Stórurð og hluta Víknaslóða. Þá er tæp vika í fjallaskíðahátíðina Austurland freeride festival sem ferðaþjónustan Mjóeyri heldur utan um.

Íslendingar fengu ekki nóg af Austurlandi síðasta sumar

María segir alla þessar ferðir mismunandi, í sumum tilfellum sé fólk alveg út af fyrir sig, meðan það hitti fleiri í öðrum. Ákveðinn samnefnari er þó að haldið er utan um fólkið með leiðsögn, gistingu og annarri heildarþjónustu. Þá feli ferðirnar í sér að kynnast vinsælum göngusvæðum í vetrarbúningi.

Allt þetta rímar við reynsluna frá síðasta sumri en pakkaferðir í göngur eystra, nutu þá mikilla vinsæla. „Það er markhópur hérlendis sem hefur eytt miklu í ferðir erlendis síðustu ár. Þetta er hópur sem skilur mikið eftir sig og skapar þannig störf. Við vitum að þeir sem ganga á sumrin eru líka á skíðum á veturna og við höfum unnið í að ná betur til þeirra. Við sjáum miðað við eftirspurnina nú að ferðir sem þessar eru málið, það hefur aldrei verið meira sótt í fjallaskíðahátíðina sem er sú eina sinnar tegundar hérlendis,“ segir María.

„Íslendingar fengu ekki nóg af Austurlandi síðasta sumar. Þeir sem komu voru duglegir að segja og sýna frá reynslu sinni og því getum við búist við holskeflu innlendra ferðamanna á svæðið í sumar. Vopnafjörður naut til dæmis mikilla vinsælda og höfum unnið með aðilum þar til að geta tekið á móti fólki í sumar. Það er gróska í feðraþjónustunni á Austurlandi, aðilar að þróa vörur og undirbúa sumarið,“ bætir hún við.

Ýmsir til í að kanna ný skíðasvæði

Fyrir utan ævintýraferðirnar virðist líka áhugi á skíðasvæðunum í Stafdal og Oddsskarði. „Það er hefð fyrir skíðaferðum til Akureyrar, Siglufjarðar og Ísafjarðar og margir sækja þangað. Hins vegar er ákveðin bylgja í gangi af fólki sem vill prófa önnur skíðasvæði og sækir þangað sem færri eru.

Okkar svar að við eigum ýmislegt inni. Okkar skíðasvæði eru minni en til dæmis í Bláfjöllum eða Hlíðafjalli en við viljum líka gera hlutina vel þannig fólk þurfi ekki að bíða lengi í röð. Við höfum líka sérstöðu, eins og í Oddsskarði þar sem skíðað er niður í átt að sjónum með útsýni yfir firðina og fjallahringinn í kringum Stafdal auk þess sem á Fjarðarheiði er frábært gönguskíðaspor,“ segir María.

Hún telur ýmis fleiri tækifæri til fjallaskíðaiðkunar eystra. „Hér er talsvert af vegum upp á fjöll þannig við höfum aðgengilegt svæði. Þú getur keyrt áleiðis, gengið upp á toppinn og rennt þér niður. Í því felst sérstaða og fleiri leiðir opnast í apríl og maí.

Mynd: Blábjörg/Fjallakofinn

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.