Austfirskar verslanir í útrás til Akureyrar
Þrjár austfirskar verslanir hafa að undanförnu opnað útibú á Akureyri. Þær hafa löngum átt dyggan kúnnahóp að norðan og hafa séð tækifæri í að færa út kvíarnar.
Fjallað er um útrás verslananna í grein á Akureyri.net. Þær eru Hús handanna og River frá Egilsstöðum og Blóðberg frá Seyðisfirði.
Blóðberg, sem Erna Helgadóttir hefur rekið, var fyrst í röðinni og opnaði árið 2023. Áherslan þar er á hönnunarvörur, meðal annars frá Farmers Market.
Alltaf fengið hópa frá Norðurlandi
Næst í röðinni var River, sem opnaði nyrðra í sumar. Að baki henni stendur María Lena Heiðarsdóttir, sem tók við rekstri River á Egilsstöðum af foreldrum sínum árið 2024. María Lena er þekktust fyrir íþróttavörumerki sitt M Fitness og verslun á vegum þess opnaði á Akureyri árið 2023.
„River hefur alltaf verið bæði íþrótta- og tískuvöruverslun og það hefur unnið mjög vel saman í gegnum árin. Eftir að við tókum við rekstrinum á River langaði okkur að sjá hvort verslunin myndi ekki passa vel með M Fitness vörunum, og þar sem við vorum nú þegar með verslunarhúsnæði á Tryggvabraut, ákváðum við að opna River í sama húsnæði,“ segir María Lena í samtali við Akureyri.net.
Áður hafði River opnað verslun með M Fitness í Reykjavík. Góður árangur þaðan varð hvatningin að því að opna á Akureyri, en Norðlendingar hafa í gegnum tíðina nýtt tækifærið í ferðum austur til að koma við í River.
„Við eigum mikið af góðum kúnnum um allt land og höfum á hverju ári fengið til okkar konuhópa frá Norðurlandi. Eins höfum við verið að senda mikið af pöntunum til Akureyrar í gegnum netverslunina, þannig að við teljum að það sé góður grundvöllur fyrir River verslun á Akureyri.“
Ekki bara stórfyrirtækin sem fara í útrás
Í haust opnaði Hús handanna síðan útibú undir heitinu „Hygge og hýjalín“. „Okkur bauðst óvænt að fara í 25 fermetra útrás til Akureyrar. Það eru ekki alltaf bara stórfyrirtæki sem fara í útrás,“ segir Lára Vilbergsdóttir, sem staðið hefur í stafni Húss handanna á Egilsstöðum í 15 ár.
Nýja verslunin er með áherslu á norræna hönnun, bæði fatnað og gjafavöru, sem Hús handanna hefur flutt inn. Lára segir hugmyndina að versluninni hafa kviknað með sprettiopnunum, bæði í Reykjavík og Akureyri, sem hafi gefið góða raun.
„Akureyri er dásamlegur bær og mikilvægur markaður fyrir okkur. Það er bæði gaman og skynsamlegt skref fyrir lítið fyrirtæki eins og okkar að færa út kvíarnar hér. Við erum með vefverslun hushandanna.is, en konum finnst mikilvægt að máta, og þess vegna gott að hafa bækistöð hér. Við eigum marga góða og skemmtilega kúnna á Akureyri, sem koma austur til að versla.
Það er eina áhyggjuefnið að þeir hætti að koma austur með tilkomu útibúsins, og það má alls ekki gerast. Það er svo gaman að fá svona hressar konur að norðan til okkar austur í heimsókn,“ segir Lára.
Hún bætir við að ekki sé útilokað að verslunin flytjist alfarið norður ef ekki fæst stöðugleiki í húsnæðismál Húss handanna á Egilsstöðum. Verslunin hefur frá upphafi verið í leiguhúsnæði og breytingar í kringum það hafa ógnað tilveru hennar.