Austfirskir kennarar boða til tveggja samstöðufunda
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. feb 2025 12:51 • Uppfært 10. feb 2025 12:54
Kennarar í Fjarðabyggð og Múlaþingi efna til samstöðufunda í kvöld vegna kjaradeilna við sveitarfélög annars vegar, hins vegar ríkið. Kennarar komu aftur til starfa á Egilsstöðum og Reyðarfirði í morgun eftir að verkföll þar voru dæmd ólögleg.
Félagsdómur dæmdi í gærkvöldi verkföll kennara, þar sem þau voru ekki í öllum skólum sveitarfélags á viðkomandi skólastigi, ólögleg. Forsendur dómsins eru að sveitarfélögin séu vinnuveitendur kennara en ekki stakir skólar og hefði því átt að boða verkföllin í öllum skólum sveitarfélags. Dómurinn klofnaði, þrír dómarar af fimm stóðu að baki niðurstöðunni en tveir skrifuðu saman sérálit.
Með dóminum var endir bundinn á verkfall kennara sem hófst fyrir viku. Þar með hófst kennsla aftur í Egilsstaðaskóla og af fullu í leikskólanum Lyngholti á Reyðarfirði.
Boðað hefur verið samstöðufundar kennara á tveimur stöðum á Austurlandi í kvöld, annars vegar í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum, hins vegar á túninu við N1 á Reyðarfirði. Fundirnir hefjast klukkan 19:00, á sama tíma og samstöðufundur við Austurvöll sem er tímasettur með hliðsjón af stefnuræðu forsætisráðherra.
Í síðustu viku samþykktu kennarar Verkmennaskóla Austurlands að boða til verkfalls. Það hefst föstudaginn 21. febrúar, hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma. Þeir eru samhliða í viðræðunum þótt ríkið sé þeirra viðsemjandi. Félagsdómur nær ekki yfir þeirra verkfall svo það stendur óhaggað.