Bað fyrir snjó og fékk þrif, þvott og bón í staðinn

Ari Dan Árnason eldri borgari í Neskaupstað datt í lukkupottinn í gærdag þegar starfsmenn Réttingarverkstæðis Sveins komu í heimsókn til hans og afhentu honum gjafabréf upp á þrif, tjöruþvott og bón á bíl hans.

Ástæðan var starfsmennirnir höfðu beðið Ara Dan um að biðja fyrir snjó deginum áður og það gekk eftir. Alhvít jörð var daginn eftir þvert á allar veðurspár.

Hlynur Sveinsson formaður verkstæðisins segir að Ari Dan hafi komið til þeirra til að láta umfelga bíl sinn fyrir veturinn,

„Við vorum aðeins að gantast með að nú þyrftum við snjókomu til að klára vetrardekkjavertíð okkar í snarheitum og báðum hann að biðja fyrir snjó svo það gæti gerst. Hann tók vel í það,“ segir Hlynur.

„Við höfðum áður litið á veðurspá eins og við gerum daglega og þar var ekkert í kortunum um snjókomu. Svo bara er komin alhvít jörð hér í Neskaupstað daginn eftir.“

Fram kemur í máli Hlyns að þeir á verkstæðinu hafi þá strax rætt um að þeir þyrftu að gera eitthvað fyrir Ara Dan í staðinn.

„Við vorum að pæla í að endurgreiða honum umfelgunina en ákváðum svo í stað að útbúa fyrir hann gjafakortið,“segir hann. Ara Dan var síðan afhent kortið í hádeginu í gærdag.

Hlynur segir að þeir séu nú í miðri „haustvertíðinni“ hvað varðar umfelgun á dekkjum fyrir veturinn. „Þetta hefur gengið vel hjá okkur og ætli vertíðin klárist ekki á næstu þremur vikum eða svo,“ segir hann.

Hægt er að sjá umfjöllun um málið á Facebook síðu Réttingarverkstæðis Sveins ehf.

Mynd. Facebook.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar