Barði kom með 1200 tonn af loðnu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. feb 2025 11:27 • Uppfært 25. feb 2025 11:29
Barði NK, skip Síldarvinnslunnar, kom inn til Neskaupstaðar í morgun með 1200 tonn af loðnu. Þar með er kvóti fyrirtækisins búinn í bili og gott betur. Fleiri austfirsk skip eru ýmist á landleið eða á veiðum.
Barði kom inn um klukkan hálf sjö í morgun með um 1200 tonn. Aflinn fékkst inn á Faxaflóa, suður af Malarrifi á Snæfellsnesi.
„Þetta gekk eins og í sögu. Við fórum út á föstudagskvöld og sigldum rólega á miðin. Við byrjuðum að veiða á sunnudagsmorgni og fengum aflann í þremur köstum. Það stærsta var 285 tonn og það stærsta 580 tonn. Við vorum búnir um kvöldið og lögðum þá af stað heim. Þannig þetta var gott dagsverk.
Fiskurinn er fínn. Hann skiptist til helminga í hrygnu og hæng og hrognafyllingin er 19-20%,“ segir Þorkell Pétursson, skipstjóri á Barða. Til stendur að frysta loðnuna, enda eru markaðir fyrir heilfrysta loðnu tómir.
Hjálpast að við að ná kvótanum
Jón Kjartansson var á miðunum á svipuðum tíma og Barði, aðeins síðar þó sem þýðir að það er nú á leið til Eskifjarðar. Venus frá Vopnafirði og Polar Amaroq, skip grænlensks hlutdeildarfélags Síldarvinnslunnar, eru núna að veiðum.
Í síðustu viku var gefinn út alls tæplega 9000 tonna loðnukvóti. Það er ekki mikið á hvern stað, í hlut Síldarvinnslunnar komu alls 820 tonn en Barði veiddi fyrir fleiri félög. Gott dæmi um knappan kvóta er að Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði fékk 78 tonn í sinn hlut.
„Ég geri ekki lítið úr því að ég er glaður að fá loðnu, en þetta er enginn vertíð. Ég hef verið í þessu síðan 1991 og aldrei séð svona lítinn kvóta.
Nýr leitarleiðangur
Áfram verður reynt. Polar Ammassak, skip grænlensks hlutdeildarfélags Síldarvinnslunnar og Aðalsteinn Jónsson frá Eskju fóru af stað í gærkvöldi og sigldu norður fyrir land. Þar verður þess freistað að ná í göngu sem sást norðvestur af landinu í leitarleiðangri fyrr í febrúar. „Vonandi finna þeir eitthvað þannig það verði viðbót,“ segir Þorkell.
Önnur uppsjávarveiðiskip Síldarvinnslunnar, Börkur og Beitir, eru á kolmunnaveiðum á Rockall svæðinu.