Bið í Oddsskarðinu en allt komið á fullt í Stafdal
Gæðunum er aðeins misskipt í byrjun nýs árs á skíðasvæðunum tveimur austanlands. Í Stafdal var snjómagnið nægjanlegt strax þann 3. janúar til að opna svæðið en töluvert meiri snjó þarf enn til í Oddsskarði svo hægt verði að setja lyfturnar þar í gang.
Skíðavertíðin á Austurlandi hafin þetta árið en eins og undanfarin ár og áratugi eru skíðasvæðin tvö; Oddsskarð og Stafdalur, jafnan aðeins opin seinni hluta vetrar í þrjá til fjóra mánuði eftir atvikum.
Ekki er óalgengt að nokkur munur sé á snjóalögum á skíðasvæðunum tveimur eins og nú er raunin en slíkt var einmitt ein af grundvallarástæðunum fyrir mun meiri samvinnu skíðasvæðanna tveggja sem kallað hefur verið eftir um áraraðir. Þær óskir urðu loks að veruleika í lok síðasta árs og nú, fyrsta sinni, gilda allir skíðapassar allra aldurshópa á bæði svæðin.
Það er af þessu sérstaka tilefni sem skíðasvæðin tvö bjóða áhugasömum upp á sérstök 20% afsláttarkjör á vetrarkortum fram til 15. janúar en lausleg úttekt Austurfréttar leiðir í ljós að jafnvel án þess afsláttar er hvergi í boði að kaupa vetrarkort á jafn lágu verði og austanlands.
Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands næstu dagana er ekki gert ráð fyrir ýkja mikilli ofankomu fyrr en á sunnudaginn kemur. Þar verður þó að líkindum um rigningu að ræða fremur en snjókomu. Tilkynnt verður um opnun í Oddsskarði á vef Fjarðabyggðar um leið og snjór verður nægur.
Stafdalur í blíðskaparveðri fyrir fáeinum árum. Þar opnaði svæðið strax eftir áramótin og verið vel sótt síðan. Mynd Visit Austurland