Bíða eftir að heyra af hugmyndum HB Granda

Oddviti Vopnafjarðarhrepps segir íbúa þar slegna yfir uppsögnum í fiskvinnslu stærsta atvinnurekanda staðarins, HB Granda, í gær. Þeir vona að stjórnendur fyrirtækisins finni aðrar leiðir til að halda uppi atvinnu.

„Það eru allir slegnir yfir þessu. Það var ellefu manns sagt upp sem er stór hluti af vinnandi fólki í samfélaginu. Það er hins vegar ekki hægt að krefjast þess að bolfiskvinnslan sé rekin með tapi,“ segir Sigríður Bragadóttir, oddviti Vopnafjarðarhrepps.

Á starfamannafundi í gærmorgun kynntu stjórnendur frá HB Granda um að bolfiskvinnslu fyrirtækisins á Vopnafirði yrði hætt í núverandi mynd. Um leið var ellefu föstum starfsmönnum sagt upp.

Talsmenn HB Granda hafa gefið þær skýringar opinberlega að bolfiskvinnslan, sem hófst sumarið 2017, hafi ekki borið sig. Þeir séu hins vegar að skoða aðrar möguleika í vinnslu á Vopnafirði og áfram verði haldið öflugri uppsjávarveiðivinnslu á staðnum.

„Fyrirtækið er ekki að hætta uppbyggingu sinni hér. Þeir eru að hugsa aðrar hugmyndir sem við vitum ekki enn hverjar eru en koma vonandi fljótlega í ljós hverjar eru.“

Í samtali við Austurfrétt sagði Sigríður Vopnfirðinga hóflega bjartsýna á framhaldið. Þeir bíði hins vegar fregna, nýir siðir fylgi nýjum herrum en HB Grandi fór í hendur nýrra eigenda í sumar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar