Bíða þess að vindinn lægi til að geta aðstoðað Stöðfirðinga
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. feb 2025 13:51 • Uppfært 06. feb 2025 13:52
Enn bætist í útköll vegna veðurofsans á Stöðvarfirði. Ekki hefur tekist að senda aðstoð þangað en heimamenn hafa verið að linnulítið síðan um miðnætti.
„Slökkviliðsmenn hafa verið þar að síðan hálf eitt í nótt og síðasta útkallið var núna klukkan eitt,“ segir Ingvar Georg Georgsson, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð. Ekki hefur verið hægt að senda frekari aðstoð þangað en það verður gert um leið og vind lægir.
Hann segir mikið tjón þar. Þök á minnst 10-12 húsum séu illa farin, rúður brotnar og bílar skemmdir. Við smábátahöfnina hefur unnið að því að tryggja báta.
Ingvar segir að ekki séu aðstæður til að reyna að fyrirbyggja frekara tjón, svo sem negla niður þök. „Hlutirnir eru skorðaðir þegar þeir detta niður og stórvirkar vinnuvélar notaðar til þess.“
Á Breiðdalsvík var einnig gengið í að festa báta í höfninni. Snarlega var líka brugðist við þegar þakið tók að losna af slökkvistöðinni.
Fjárhús við bæinn Vattarnes yst í sunnanverðum Reyðarfirði eru illa farin. Þangað er heldur ekki hægt að senda aðstoð og heimafólki ekki óhætt að fara út. Það er í skjóli í kjallara íbúðarhússins.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur orðið foktjón á Austurlandi en langverst á Stöðvarfirði. Lítil von er til að veðrið gangi niður fyrr en eftir klukkan 17.
Frá Stöðvarfirði um hádegið. Mynd: Aðsend