Björgunarsveitir kallaðar út á Fjarðarheiði
Búið er að kalla út björgunarsveitir bæði frá Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði til að aðstoða ökumenn sem lent hafa í vanda á Fjarðarheiði í morgun.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu standa aðgerðir á heiðinni yfir. Ekki liggur fyrir nákvæmur fjöldi þeirra bíla sem lent hafa í vanda en þeir eru „þó nokkrir.“
Heiðinni var lokað rétt fyrir klukkan tíu í morgun. Þá var orðið mjög blint á henni og slæmar aðstæður.
Upp úr hádegi tók að draga úr úrkomu á svæðinu en á móti bætti í vind. Vegagerðin metur síðar í dag hvort hægt sé að opna heiðina.
Krapi, hálka og snjóþekja eru á flestum austfirskum vegum og gular viðvaranir í gildi fram eftir kvöldi. Björgunarsveitin Gerpir í Neskaupstað var einnig kölluð út fyrir hádegið til að bjarga bíl sem fór út af rétt við Norðfjarðargöng í Fanardal.