Björgvin Vídalín: Sátt með að hafa gert þessa tilraun

Oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi segir það vonbrigði hve lítinn stuðning flokkurinn fékk í þingkosningunum á laugardag. Það hafi samt verið þess virði að bjóða fram og ánægjulegt að kynnast kjördæminu.

„Úrslitin eru vonbrigði. Við áttum von á að fá meira, jafnvel upp undir 5%,“ segir Björgvin E. Vídalín Arngrímsson sem fór fyrir flokknum í Norðausturkjördæmi.

Hann segir flokkinn hafa mætt mótbyr í aðdraganda kosninganna. „Kerfið var á móti okkur. Það fór fram pólitísk aftaka á flokknum eiginlega frá því hann var stofnaður.

Við vorum aldrei með í könnunum og fjölmiðlar birtu engar greinar eftir okkur, það var afsakað með að þær voru of mörg orð. Svo kom ekkert meira.

Í umfjöllun í sjónvarpi var aldrei minnst á tíunda framboðið, Frjálslynda flokkinn. Fólk vissi ekkert hver við vorum nema í gegnum það sem við skrifuðum sjálf á Facebook. Svo var formaðurinn okkar með reglulega pistla á YouTube. Við höfðum því ekki miklar væntingar. Mér finnst líka út í hött að það séu birtar skoðanakannanir nánast inn á kjördag.“

Borgaði ferðirnar úr eigin vasa

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn var með í sjónvarpskappræðum og einhverjum framboðsfundum en Björgvin segir að hafa farið seint af stað. „Þegar kosningabaráttan byrjaði fengum við að vera með, sem var flott en tíminn var alltof stuttur til að koma okkar á á framfæri.

Eins höfðum við ekkert fjármagn til að halda úti maraþon auglýsingum í sjónvarpi og útvarpi. Ég kostaði til dæmis mína baráttu nær alfarið úr eigin vasa, ég eyddi örugglega 200.000 krónum í akstur þá rúma tvo mánuði sem ég var í kjördæminu.

Það nýjasta er að formenn nokkra flokka brutu kosningalögum með að mæta með merki sinna flokka í barminum á kjörstað. Yfirstjórn talar um hefðir frekar en að fara þurfi að lögum. Þetta er orðið skrýtið kerfi. Lýðræðið virðist ekki hátt skrifað þegar kemur að pólitískum slagsmálum. Norðausturkjördæmi var hið eina sem taldi rétt og fær rós í hnappagatið fyrir það,“ segir Björgvin.

Að mörgu leyti öflugt kjördæmi

Björgvin er eins og reyndar fleiri oddvitar ekki búsettur í Norðausturkjördæmi. Hann notaði kosningabaráttuna til að kynnast svæðinu og hreifst af mörgu sem hann sá.

„Þetta er að mörgu leyti öflugt kjördæmi ef rétt er að staðið. Mér fannst gaman að sjá seiðaeldið við Kópaskeri, þótt ég sá að mörgu leyti neikvæður fyrir sjókvíaeldi. Það skemmir sælífið á grunnsævi þar og gríðarlega verðmætan þaragróðurinn þar undir. Ég starfaði um tíma sem kafari hjá Hafrannsóknastofnun og kafa enn reglulega, það hefur verið mitt áhugamál að mynda lífríki sjávar. Ég held því að sveitastjórnirnar ættu að huga að þessu.

En það er líka ýmislegt sem þarf að laga í dreifbýlinu á Austfjörðum. Heilsugæsla og læknisþjónusta er í molum og svo er dapurt að aka um hvert smáþorpið á fætur öðru þar sem ekki nokkur bátur er í höfn. Það er furðulegt að ekki séu leyfðar frjálsar handfæraveiðar til að koma lífinu í þetta fólk.

Síðan eru það samgöngurnar, þetta sleifarlag að hafa ekki komið Fjarðarheiðargöngum í útboð eða auglýsingu út af fáeinum milljónum. Síðan eru göngin um Ólafsfjarðarmúla handónýt. Ég festist sjálfur þar í júlí því það kom trukkur á móti sem fyllti út í göngin. Þar var engin umferðarstjórnun eða símasamband. Ég þurfti sjálfur að taka að mér stjórnun við að hnika bílum fram og til baka þannig að trukkurinn kæmist áfram,“ segir Björgvin.

Ekki að leggja flokkinn niður

Enginn flokkur hefur fengið færri atkvæði á landsvísu en Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn. Björgvin segir þó að flokksfélagar leggi ekki árar í bát.

„Við höfum verið að krúnka okkur saman. Það hefði verið ágætt að fara yfir þann þröskuld sem settur er til að fá eitthvað frá ríkinu til að halda félagsstarfinu gangandi. Við ætlum ekki að leggja flokkinn niður, við bíðum og sjáum hvort við bjóðum fram í sveitastjórnarkosningunum.

Við erum sátt sjálf með að hafa gert þessa tilraun, þótt árangurinn hafi ekki verið samkvæmt væntingum. Vonandi síðast eitthvað inn hjá fólkinu varðandi spillinguna og þetta ömurlega lýðræði sem þrífst í kosningabaráttu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.