Blængur NK fer í mánaðartúr í Barentshafið

Frystitogarinn Blængur NK mun halda til veiða í Barentshafi á morgun. Reiknað er með að veiðiferðin muni taka 34 daga. Það mun taka skipið um þrjá og hálfan sólarhring að sigla á þessi mið.

Fjallað er um málið á vefsíðu Síldarvinnslunnar. Þar er rætt við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurður hvort gert væri ráð fyrir löngum túr.

„Það er gert ráð fyrir 34 daga túr og það þýðir að við verðum komnir heim um 25. nóvember. Ráðgert er að veiða  um 600 tonn og við eigum eftir að sjá hvernig það gengur,“ segir Theodór.

„Síðustu fréttir herma að ekki sé mikið fiskirí á þessum slóðum akkúrat núna en það getur breyst á skömmum tíma. Auðvitað vona allir að það gangi sem best að veiða og við náum aflanum á skemmri tíma en gert er ráð fyrir. Veður hefur mikil áhrif á veiðarnar en það er allra veðra von á þessum slóðum á þessum árstíma. Annars eru menn bara bjartsýnir og vonandi á þetta eftir að ganga vel,“ segir Theodór.

Blængur NK fór í mettúr á þessar slóðir í sumar og kom í land þann 20. júlí. Í frétt á Austurfrétt frá þeim tíma segir: „Alls var aflinn 1.430 tonn upp úr sjó og er aflaverðmætið um 512 milljónir króna (fob). Hásetahluturinn úr túrnum nemur um 5,5 milljónum króna og heildarlaunagreiðslur nema 225 milljónum, en túrinn var líka langur, rétt tæpir 40 sólarhringar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar