Blak: Kvennaliðið vann eina hrinu gegn Völsungi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. jan 2025 09:08 • Uppfært 23. jan 2025 09:08
Lið Þróttar tapaði í gærkvöldi 1-3 gegn Völsungi í úrvalsdeild kvenna í blaki. Völsungur hafði yfirburði í hrinunum þremur sem liðið vann.
Húsavíkurliðið endurheimti með sigrinum í gærkvöldi annað sæti deildarinnar meðan Þróttur er í sjötta sæti með níu stig úr 13 leikjum. Út frá því kom Völsungsliðið sigurstranglegra til leiks enda spilaðist leikurinn þannig.
Völsungur hafði talsverða yfirburði í fyrstu hrinu og vann hana 19-25. Önnur hrinan var talsvert jafnari en Þróttur átti slæman kafla eftir að jafnt hafði verið 15-15. Völsungur skoraði þá fjögur stig í röð og þar með var orðinn munur sem Þróttur náði ekki að brúa. Völsungur vann 18-25.
Þriðja hrinan var áhugaverð. Völsungur komst í 0-5 og síðan 3-10 og virtist vera að landa afar öruggum sigri. En svo var ekki. Smám saman saxaði Þróttur á forskotið, náði því niður í 11-12 og komst svo yfir 14-13. Næst jafnaði Völsungur í 17-17 en Þróttur skoraði þá þrjú stig í röð. Liðið var síðan með svo gott sem unna hrinu í stöðunni 24-20 en Völsungur skoraði þrjú stig í röð. Þrótti tókst að knýja fram síðasta stigið og vinna 25-23.
En þá var krafturinn búinn og Völsungur vann stórsigur í fjórðu hrinu, 14-25.
Þrír leikir eru framundan um helgina. Karlaliðið tekur á móti HK á laugardag og sama dag tekur kvennaliðið á móti Aftureldingu í bikarleik. Kvennaliðin mætast aftur á sunnudag í deildarleik.
Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða