Boðað til mótmæla gegn lokun starfsstöðvar RÚVAust

Hópur Austfirðinga hefur boðað til mótmæla við starfsstöð Ríkisútvarpsins á Austurlandi (RÚVAust) á laugardag. Hópurinn vill mótmæla niðurskurði hjá stofnuninni en þremur starfsmönnum RÚVAust var sagt upp í seinustu viku og útlit er fyrir að útsendingar svæðisstöðvarinnar leggist af.

 

ImageÍ ályktun sem hópurinn sendi frá sér í morgun segir að eftir aðgerðirnar standi RÚV ekki lengur undir nafni sem útvarp allra landsmanna þar sem það geti ekki lengur sinnt skyldum sínum.

„Stutt er frá því að notendagjöldum Ríkisútvarpsins var breytt með lögum frá Alþingi í nefskatt sem ríkið innheimtir. Slíkt hefði átt að tryggja stöðu Ríkisútvarpsins en nú hefur Alþingi ákveðið að ráðstafa 10% skattsins með öðrum hætti og vega þannig harkalega að fréttaflutningi af landsbyggðinni og þar með því draga verulega úr getu þess til að sinna lögbundnu og lýðræðislegu eftirlits- og aðhaldshlutverki sínu.  Á sama tíma er verið að fella niður stórfelldar skuldir einkarekinna fjölmiðla við banka í opinberri eigu sem ekki hafa lögboðnar skyldur um fréttamiðlun og öryggi landsmanna.

Við mótmælum því ekki að draga verði úr beinum útsendingum frá alls kyns viðburðum fyrir fáa en hörmum þeim mun meira þá skerðingu sem verður á fréttaflutningi af landsbyggðinni ef hún verður nokkur. Með slíkri skerðingu er vegið að atvinnu og lífsgæðum íbúanna. Svæðisbundnar fréttir hafa gegnt lykilhlutverki í markaðssetningu ferðaþjónustu innanlands auk þess að leggja ríkulega til samstarfs og samhyggðar íbúa í hinum dreifðari byggðum.
Þess ber að geta að nefskattur Austfirðinga til Ríkisútvarpsins nemur líklega um 150 milljónum króna á ári og að auglýsingatekjur af svæðinu, bæði á svæðisútvarpi,  samlesnum rásum og skjá eru umtalsverðar.  Nú eru þau góðu tengsl rofin og ekki ólíklegt að auglýsendur snúi sér í auknum mæli annað.

Við krefjumst þess að útvarpsstjóri geri okkur íbúum  á Austurlandi og eigendum  Ríkisútvarpsins grein fyrir sinni ákvörðun og skýri um leið með hvaða hætti Ríkisútvarpið hyggst sinna lögboðnum skyldum sínum gagnvart Austfirðingum sem og öðrum íbúum utan höfuðborgarsvæðisins.“

Mótmælin verða við starfsstöð RÚV á Egilsstöðum, Miðvangi 2-4, (Kleinunni) laugardaginn 30. janúar kl. 14:00

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.