Boðað til íbúafundar vegna úrkomu

Sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands munu fara yfir stöðuna á Seyðisfirði í ljósi mikillar úrkomu sem hefur verið þar síðustu daga á íbúafundi síðar í dag.

Fundurinn verður haldinn klukkan 16:30 á fjarfundaforritinu Teams en hægt verður að komast inn á fundinn í gegnum vef Múlaþings.

Sérfræðingar Veðurstofunnar halda þar framsögu, fara yfir úrkomuspá næstu daga, kynna vöktun og svara spurningum. Þar verða einnig fulltrúar frá Múlaþingi, lögreglunni á Austurlandi og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Veðurstofan sendi frá sér tilkynningu seinni partinn í gær um að sólarhringinn á undan hefði úrkoma á Seyðisfirði mælst 22 mm. Samkvæmt tölum úr veðurstöð í bænum bættust aðrir 20 mm við fram yfir klukkan þrjú í nótt þegar loks tók að stytta upp. Aftur er búist við rigningu í nótt.

Þá hafði ekki mælst hreyfing á hryggnum við Búðará síðan á föstudag. Sú hreyfing var margfalt minni, 5-11 mm samanborið við rúman metra yfir nokkurra vikna tímabil í fyrrahaust. Ekki er því talið tilefni til aðgerða. Vatnshæð í flestum borholum lækkaði í gær en áfram er fylgst með aðstæðum.

Ekki hafa enn borist tíðindi af skriðuföllum á Austurlandi þrátt fyrir mikla úrkomu næstu daga. Skemmdir eru á veginum yfir Öxi eftir rigninguna og illfært yfir Mjóafjarðarheiði vegna aurbleytu. Mörg vatnsföll hafa vaxið hraustlega, þannig hefur vatnsyfirborð Lagarfljóts við Fellabæ hækkað um rúman metra undanfarinn sólarhring.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.