Börkur II verður Barði

Uppsjávarveiðiskipið Barði II hefur fengið nafnið Barði og einkennisstafina NK 120. Skip með þessu nafni hefur ekki verið í safni Síldarvinnslunnar síðustu fjögur ár.

Nafnið er sögufrægt þar sem Barði NK 120 var fyrsta skipið sem Síldarvinnslan eignaðist, síldveiðiskip smíðað í Austur-Þýskalandi árið 1964 og var í eigu fyrirtækisins til 1970.

Næsti barði í röðinni var fyrsti skuttogari Íslendinga og var gert út frá Neskaupstað á árunum 1970-1979, að því er fram kemur í samantekt á vef Síldarvinnslunnar um Barðana.

Sá þriðji var skuttogari og hinn fjórði frystitogari. Sá fimmti, skuttogari, var hjá Síldarvinnslunni frá árinu 2002-2017 eftir að hafa áður borið heitið Snæfugl og verið í eigu Skiptakletts á Reyðarfirði sem sameinaðist Síldarvinnslunni.

Nýjasti Barðinn er smíðaður í Tyrklandi árið 2012 fyrir norska útgerð. Þar hét hann Marlene S en varð Börkur þegar Síldarvinnslan keypti hann snemma árs 2014. Hann varð Börkur II í sumar þegar nýr Börkur, smíðaður sérstaklega fyrir Síldarvinnslunnar, kom til heimahafnar.

Börkur II var settur á söluskrá en var þó gerður áfram út, meðal annars leigði Samherji skipið til makrílveiða í sumar. Um tíma stóð til að selja Bjarna Ólafsson, skip dótturfélags Síldarvinnslunnar, og Börkur II yrði nýr Bjarni Ólafsson en af því varð ekki. 

Eftir að stóraukinn loðnukvóti var gefinn út í byrjun mánaðarins varð ljóst að þörf væri á sem flestum uppsjávarveiðiskipum til að geta veitt kvótann og Börkur II nefndur Barði. Áhöfn er komið á skipið sem lét úr höfn upp úr miðnætti til kolmunnaveiða.

Mynd: Síldarvinnslan


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar