Bóksala tvöfaldast í kjörbúðinni í Neskaupstað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. des 2024 11:46 • Uppfært 18. des 2024 11:50
Sala bóka í Kjörbúðinni í Neskaupstað hefur meira en tvöfaldast samanborið við sama tíma í fyrra. Víðar í verslunum Samkaupa á Austurlandi er aukning þótt hún sé ekki í líkingu við Neskaupstað. Framkvæmdastjóri hjá Samkaupum segir fyrirtækið hafa lagt aukna áherslu á bóksölu fyrir jólin.
Aukningin í versluninni í Neskaupstað nemur 126% og er hún hefur selt næst mest af bókum af Kjörbúðunum á landsvísu, þar hafa selst um 300 bækur.
Í búðinni á Eskifirði eru seldar bækur í ár en voru ekki í fyrra. Aukning er á Seyðisfirði en á Fáskrúðsfirði er salan svipuð. Samkaup rekur einnig Nettó á Egilsstöðum. Þar er þriðjungs aukning í sölu fjölda bóka og eru þær orðnar tæplega 2.000 í ár.
Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa segir fyrirtækið hafa ákveðið að auka framboð bóka í verslunum sínum fyrir þessi hól. Sérstök áhersla sé á bækur eftir íslenska höfunda og bækur fyrir börn og unglinga. „Það hefur verið umræða um mikilvægi lestrar og við teljum að hún hjálpi. Þess vegna vildum við reyna að auðvelda fólki að nálgast bækur. Það er ótrúlega ánægjulegt að vel sé tekið í það.“
Viðbúið er að tölurnar hækki enn frekar því stærsta vikan í bóksölunni er enn eftir. „Við höfðum háleit markmið um bóksöluna og til þessa hafa búðirnar okkar staðið sig vel. Við teljum að þetta fjölbreytta úrval og besta verðið eigi sitt í því, en við erum líka að færa fólki um allt land bækur.“
Í yfirliti frá Samkaupum kemur fram að bækur um Hvolpasveitina og Láru sem fer á fótboltamót eru vinsælustu barnabækurnar. Í flokki fullorðinsbóka eru Ferðalok Arnaldar Indriðasonar og Útkallsbók Óttars Sveinssonar um sjóslysið í Vöðlavík fyrir 30 árum efstar. Yfirlitið er fyrir landið í heild.
Mynd: Samkaup