Bóndavörðulág hentugasta hestamannasvæðið eftir allt saman

Í lok marsmánaðar tók umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings neikvæða afstöðu til óska nýs hestamannafélags á Djúpavogi um svæði til afnota við svokallaða Bóndavörðulág. Eftir yfirlegu skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins virðist það þó hentugasta svæðið til þeirra nota.

Hestamannafélagið Glampi, sem stofnað var á þessu ári, vildi kanna möguleika á svæði undir hestaíþróttir í nálægð við bæinn en ekkert slíkt svæði hefur verið þar til staðar hingað til. Forsvarsmenn félagsins töldu Bóndavörðulág hentugast undir slíkt eins og kom fram í viðtali við Austurfrétt á sínum tíma.

Umhverfis- og framkvæmdaráð fagnaði hugmyndinni sem slíkri en taldi Bóndavörðulág ekki góðan kost undir slíkt og var því skoðað hvaða önnur svæði í grennd við þéttbýlið kæmu til greina.

Þeirri vinnu er nú lokið og af þeim þremur stöðum sem komu til álita er það Bóndavörðulágin sem þykir álitslegasti kosturinn. Horft var þar til Bóndavörðulágarinnar auk Grænahrauns og Bláinnar.

Sigurður Jónsson, skipulagsfulltrúi, mat alla kostina en öll eru svæðin innan verndarsvæða eða á jaðri þeirra. Töluvert rask og jarðvinna fylgir uppsetningu hestamannasvæða í Blánni og Grænahrauni auk vega- og stígagerðar og dýrara yrði að setja upp aðstöðu á þeim svæðum en í Bóndavörðuláginni. Síðastnefnda svæðið hagstæðara varðandi reiðleiðir og lægi vel við gatnakerfið og reiðleiðir út á sanda. Stærsti gallinn sé að stækkunarmöguleikar til framtíðar sér takmarkaðir og öll uppbygging þarf að taka mið af gildandi hverfisvernd.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.