Bráðabirgðahættumat sent Múlaþingi

Veðurstofa Íslands hefur lokið við gerð bráðabirgðahættumats fyrir svæðið utan við stóru skriðuna sem féll á Seyðisfjörð 18. desember. Verið er að ljúka við gerð varnargarða til bráðabirgða.

Þetta kemur fram í tilkynningu almannavarna eftir stöðufund sem haldinn var í gær.

Þar segir að vinna við hreinsunarstarf og varnargarða hafi gengið vel. Garðar eru að mestu komnir saman við Búðará og meðfram vegi úr Nautaklauf. Unnið er að því að þétta þá, hækka og styrkja. Eins hefur verið unnið við veituskurð og varnargarð ofan Botnahlíðar.

Áfram er unnið við stóru skriðuna. Svæðið þar telst vinnusvæði og er lokað óviðkomandi umferð. Vonast er til að vinnu þar verði lokið að mestu um miðjan mars.

Verið er að gera landlíkan fyrir svæðið við Múlann og frummatsskýrslu um varnarkosti. Vonast er til að möguleg aflétting rýmingar húsanna sem á honum standa verði endurmetin í næstu viku.

Veðurstofan skilaði í vikunni inn bráðabirgðahættumati til Múlaþings og almannavarna fyrir svæðið utan við skriðuna. Þar eru íbúðarhús þar sem enn er rýming í gildi. Fyrstu niðurstöður um matið gætu legið fyrir í næstu viku. Þá er vonast til þess að drög að rýmingakorti fyrir íbúa verði tilbúin í næstu viku.

Veðurstofan hefur að auki unnið að því auka mælingar, búið er að koma upp svokölluðum speglum á staurum sem standa upp úr snjónum og rafmagn er komið upp í Neðri-Botna til að knýja sjálfvirk mælitæki þar.

Þjónustumiðstöð almannavarnadeildar og félagsþjónusta Múlaþings hafa séð um upplýsingamiðlun og aðra þjónustu í Herðubreið meðal annars. Fulltrúi Veðurstofu hefur verið í Herðubreið í þessari viku og þeirri síðustu til upplýsingamiðlunar og svara spurningum. Áframhald verður á sambærilegri þjónustu þannig að upplýsingamiðlun verði sem best og markvissust. Eru íbúar hvattir til að leita í Herðubreið ef einhverjar spurningar vakna eða þörf er á þjónustu.

Stöðufundir verða tvisvar í viku næstu tvær vikur í það minnsta, á mánudögum og fimmtudögum og oftar ef þurfa þykir. Sendar verða út tilkynningar í kjölfar þeirra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.