Breyting auglýst á skipulagi fyrir akbraut á Egilsstaðaflugvelli
Sveitarfélagið Múlaþing hefur auglýst breytingu á deiliskipulagi vegna nýrrar akbrautar við flugvöllinn á Egilsstöðum. Þá er nýbúið að samþykkja skipulagsbreytingu vegna aðflugsljósa við flugvöllinn. Hvort tveggja eykur flugöryggi í landinu.
Í nokkur ár hefur verið unnið að undirbúningi akbrautar við flugvöllinn á Egilsstöðum. Með henni verður hægt að taka hraðar á móti flugvélum sem koma þangað þegar Keflavíkurflugvöllur lokast skyndilega.
Akbrautin verður til hliðar, í áttina að Fjarðarheiði, við núverandi flugbraut. Hún á að vera 1.000 metra löng og allt að 40 metra breið. Á tveimur stöðum verður hægt að keyra á milli brautanna.
Beðið eftir samgönguáætlun
Hún hefur í för með sér 700 metra hliðrun á flugvallargirðingunni, sem þar með færist svo að segja út á bakka Eyvindarár, þó ekki nær en fimm metra. Færa þarf fráveitulögn um leið. Brautin á að vera í 40 sm hæð yfir þekktum flóðamörkum í bæði Eyvindará og Lagarfljóti.
Akbrautin nær yfir 420.000 fermetra svæði og í hana þarf 170 þúsund rúmmetra af efni. Hún er ekki talin hafa veruleg áhrif á umhverfi og þurfti þess vegna ekki í umhverfismat.
Hvenær akbrautin sjálf verður að veruleika á enn eftir að koma í ljós en það skýrist væntanlega þegar samgönguáætlun verður kynnt síðar í þessum mánuði. Frestur til að gera athugasemdir við skipulagið er til 1. desember.
Aðflugsljós bæta flugöryggi
Þá er Skipulagsstofnun nýbúin að staðfesta breytingu á skipulagi sem þýðir að formlega skipulagt flugvallarsvæði stækkar út fyrir Eyvindarána. Það er gert vegna uppsetningar aðflugsljósa við brautina á Finnsstaðanesi.
Skipulagssvæðið nær yfir 3,4 hektara lands og hefur í för með sér röskun á 0,5 hektara gróðurlendis, sem að mestu er votlendi. Sett verða upp ljós, veðurathugunarbúnaður og lagður þjónustuvegur. Öryggi á vellinum á að aukast töluvert því ljósin leiða flugvélarnar inn í ákveðna stefnu. Nákvæmlega hvenær ljósin koma skýrist væntanlega einnig þegar samgönguáætlun birtist.