Breyttur gildistími viðvarana vegna sunnanstorms
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. feb 2025 10:15 • Uppfært 03. feb 2025 10:26
Veðurstofa Íslands hefur breytt og heldur stytt þær veðurviðvaranir sem gefnar voru út í gær. Fleiri krapaflóð eru komin í ljós eftir vatnsveðrið sem gekk yfir Austfirði aðfaranótt laugardags.
Á Austurlandi að Glettingi hefur appelsínugul viðvörun verið færð framar. Hún átti ekki að taka gildi fyrr en klukkan 20 í kvöld en gengur nú í gildi á hádegi og stendur til ellefu í kvöld. Spáð er sunnan og síðan suðvestan 20-28 m/s með mjög snörpum vindhviðum. Ekkert ferðaveður verður og líkurá staðbundnu foktjóni.
Fram að hádegi er í gildi gul viðvörun, aðallega vegna hálku sem myndast á blautum svellum. Í hádeginu bætir í vindinn.
Í gær voru gefnar út tvær appelsínugular viðvaranir fyrir Austfirði, sem áttu að gilda allan daginn. Góðu fréttirnar eru þær að appelsínugula viðvörunin hefur verið stytt verulega og fellur úr gildi klukkan 17:00.
Á þeim tíma er spáð sunnan 20-28 m/s með vindhviðum yfir 40 m/s. Til viðbótar er rigning og hálka sem skapar hættu þar sem svell blotna. Hætta er á foktjóni. Eftir það lægir og vindur snýst til suðvesturs. Þá er smáð 15-23 m/s og varasömu ferðaveðri.
Seint í gærkvöldi fór að rigna og hvessa en líka hlýna á Austurlandi og eru austfirskar veðurstöðvar á toppnum í flestum veðurflokkum þennan morguninn. Mesti vindur á láglendi var á Dalatanga, 26 m/s en á hálendi 32,7 m/s á Gagnheiði. Hitinn á Seyðisfirði fór upp upp í 13 gráður og 12 í Vopnafirði en mesti hiti á hálendi var 8 gráður á Vatnsskarði. Þá er úrkoman á Fáskrúðsfirði 32,5 mm frá miðnætti. Engin útköll hafa enn borist vegna veðursins til lögreglu.
Óvissustig er enn í gildi vegna ofanflóðahættu á Austfjörðum. Á laugardagsmorgun var búið að skrá í gagnagrunn Veðurstofunnar flóð í sunnanverðum Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og undir Búlandstindi. Í gærkvöldi bættist í skráninguna.
Að minnsta kosti níu lítil flóð féllu í Svínadal, upp af Reyðarfirði, í hlíðum sem vísa til vesturs. Þá fór flóð úr Áreyjatindi niður í gljúfrið í Fagradalsá. Í Svartafjalli í Eskifirði sáust þrjú flóð í hlíðum sem vísa til suðurs. Í norðanverðum Stöðvarfirði eru líka spýjur úr Kumlafelli. Þessi flóð féllu á laugardag. Til viðbótar eru í gær skráð nokkur vot flóð í sunnanverðum Fáskrúðsfirði.
Veðurstofan hefur þegar gefið út gula viðvörun vegna mikils storms sem væntanlegur er að landinu á miðvikudagskvöld og stjórnar veðrinu á fimmtudag.
Mynd úr safni.