Brýn þörfin á fleiri hjúkrunarrýmum fyrir eldri borgara í Fjarðabyggð
Eldri borgarar í Fjarðabyggð hafa það almennt nokkuð gott ef frá er talið að biðin eftir plássum á hjúkrunarheimilum lengist ár frá ári að sögn formanns Öldrunarráðs sveitarfélagsins.
Ólafur Helgi Gunnarsson, formaður ráðsins og fyrrum skipstjóri, segist almennt bærilega sáttur við stöðu eldri borgara í sínu sveitarfélagi en hann hefur leitt Öldungaráð Fjarðabyggðar um tíma. Hlutverk þessa tiltölulega unga ráðs er að vera rödd eldri borgara gagnvart sveitarfélaginu og vera nefndum og stjórnum sveitarfélagsins til ráðgjafar varðandi málefni og hagsmuni allra íbúa yfir 67 ára aldri.
„Ég er nú nokkuð viss um að okkar aldurshópur veit af Öldungaráðinu og það starf gengur vel. Við vinnum þar saman að ýmsum málum burtséð frá einhverri pólitík. En ég get líka sagt að þetta ráð var lengi vel ekki að virka beint eins og hugmyndin átti að vera en það hefur mjög breyst til batnaðar í dag. Ráðið var ekki verið mjög virkt á sínum að mínu mati. Formleg verkefni ráðsins voru líklega of mikil og breið til að ná vel utan um.“
Of viðamikil verkefni
Þar á Ólafur Helgi við að ráðinu er ætlað að sinna einum níu verkefnum sem tengjast eldri borgurum sveitarfélagsins sem sum hver eru illa á þeirra færi að framkvæma.
„,Sum verkefnin eru þess eðlis að það er ekki hægt að ætlast til þess að einhver utan úr bæ geti sinnt þeim. Þar þarf aðkomu fagfólks til að vel fari. Þar til dæmis að það sé okkar hlutverk að meta þörfina hjá eldra fólki [á hinu og þessu] sem er bara ekki eitthvað sem einhver leikmaður úti í bæ getur metið eða tekið ákvörðun um.“
Þörf á að byggja
Ólafur segir Öldungaráðið sannarlega hafa áhrif en þörf sé á að fara að vinna betur í þeim ákveðnu verkefnum sem ráðið eigi að hafa umsjón með.
„Til dæmis er þörfin hér fyrir hjúkrunarheimili orðin miklu mun meiri en úrlausnir gera ráð fyrir. Hér þarf að fara að byggja mun fleiri hjúkrunarheimili þó verið sé að gera ráð fyrir að allir séu heima eins lengi og kostur er. Mig minnir að biðlistinn einungis inn á hjúkrunarheimilið Hulduhlíð á Eskifirði sé kominn yfir tuttugu manns og svo skilst mér að loka eigi öldrunardeildinni á Norðfirði. Það liggur bara alveg ljóst fyrir að hér í sveitarfélaginu þarf að fara að byggja ný hjúkrunarheimili eða stækka þau sem fyrir eru. Okkur eldri borgurum er bara að fjölga.“