Skip to main content

Brýnt að bæta fjarskiptasamband á Fagradal

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. jan 2025 15:04Uppfært 13. jan 2025 15:39

Erfitt reyndist að ná sambandi við viðbragðaðila til að kalla eftir hjálp eftir harðan árekstur á Fagradal í síðustu viku. Viðbragðsaðilar og yfirvöld á Austurlandi hafa lengi kallað eftir úrbótum á svæðinu en hægt gengur.


Þrír bílar lentu í árekstrinum, meðal annars erlent ferðafólk á bílaleigubíl. Vegfarendur, sem komu að slysinu, og hringdu í Neyðarlínu, segja sambandið hafa verið lítið eða ekkert. Þar með varð sambandið slitrótt og fólkið ekki öruggt um að allt hefði komist til skila fyrr en viðbragðsaðilar komu á vettvang.

Slysið varð nærri sveitarfélagamörkum Fjarðabyggðar og Múlaþings. Bæði almennir vegfarendur og viðbragðsaðilar vita á þessu svæði er farsímasamband takmarkað. Árið 2017 var á vegum Fjarskiptastofu lokið við að gera úttekt á farsímabandi á þjóðvegum.

Almannavarnir kallað eftir bættu sambandi


Þar er svæðið milli Launánna tveggja, í daglegu tali milli brúar og sæluhúss, merkt með veiku sambandi. Dagamunur getur verið á því hvort símaband rofni eða ekki þegar farið er þar um. Samkvæmt útbreiðslukorti á vef Símans er allur vegurinn dekkaður, þótt ljóst sé að sambandið sé veikara á þessum kafla. Hringdu notast við kerfi Símans en hvorki sendar VodafoneNova dekka Fagradalinn.

Viðbragðsaðilar á Austurlandi sem og yfirvöld hafa um nokkurn tíma þrýst á um úrbætur á farsímasambandinu á Fagradal. Nærri allt síðasta ár er minnst á akkúrat þennan blett í fundargerðum almannavarnanefndar Austurlands þegar rætt er þar um stöðu farsímakerfisins á Austurlandi. „Við teljum hvað brýnast að eitthvað verði gert á þessum kafla,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Vegurinn yfir Fagradal er einn fjölfarnasti vegur Austurlands utan þéttbýlis. Samkvæmt umferðartölum Vegagerðarinnar fara þar um rétt um 900 bílar á hverjum vetrardegi og 1250 að meðaltali hvern dag ársins. Miðað við tölur frá 2023 má ætla að á sunnudegi í janúar fari um 600 bílar yfir dalinn. Slysið varð í hálku og miklu kófi þannig að ökumenn sáu illa hvað framundan var.

Fyrsta skrefið að kanna hvar veiku punktarnir eru


Austurbrú, fyrir Samband sveitarfélaga á Austurlandi, hefur undanfarið ár unnið að greiningu á fjarskiptasambandi á Austurlandi og hafa viðbragðsaðilar, í gegnum almannavarnanefndina, lagt gögn inn í þá vinnu. Þar er ekki bara verið að að greina GSM samband, heldur líka samband í Tetra-kerfinu, sem viðbragðaðilar nota mikið, sem og ljósleiðara- og útvarpssamband. Von er á lokaskýrslu á allra næstu vikum.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, segir þessa greiningu hafa verið meðal áherslumálefna SSA undanfarna mánuði. „Fyrsta skrefið er að safna saman gögnunum. Síðan er aðalmálið eftir sem er að fá þetta bætt.“ Hún nefnir sérstaklega svæðið á Fagradal. „Það eru margir erfiðir staðir sem lengi hefur verið vitað um en fengið illa að fá úrbætur, eins og þessi við sveitarfélagamörkin á Fagradal.“

Takmarkað samband við fjölsótta ferðamannastaði


Lokið var við úttekt Fjarskiptastofu á sambandi á þjóðvegunum árið 2017. Síðan hefur verið bætt úr á sumum stöðum en ljóst er að aðrir eru eftir. Þar er til dæmis slæmt samband á leiðinni milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar um Gvendarnes, sem er annað svæði sem ítrekað er tiltekið í fundagerðum almannavarna og Dagmar nefnir einnig. Þar er þjóðvegur 1, rétt eins og um Fagradal.

Hún bætir við að vinna Austurbrúar eigi ekki bara um þjóðvegina, heldur til dæmis fjölsótta ferðamannastaði. Rifja má upp að illa gekk að ná sambandi við Neyðarlínu þegar banaslys varð í Laugavalladal síðsumars 2023. Bæði GSM og Tetra samband var af skornum skammti þegar banaslys varð við Stuðlagil síðasta haust. Samkvæmt fundargerðum almannavarna var það tekið upp á rýnifundum í kjölfarið og leitað að úrbótum. Von er á fjarskiptamastri en það er ekki enn komið upp.