Brýnt að fara sérstaklega varlega meðan ekki er staðfest hvaðan smitið barst

Alls eru 37 einstaklingar í sóttkví í kjölfar Covid-19 smits sem greindist á Austurlandi í gær. Vonast er til að með aðgerðum hafi verið dregið verulega úr líkum á útbreiðslu smits. Enn er óljóst hvernig einstaklingurinn smitaðist. Íbúar þurfa að fara með sérstakri gát meðan það er óstaðfest.

Í gær var staðfest að skólabílstjóri, sem ekið hefur börnum í Egilsstaðaskóla og Fellaskóla, hefði greinst með Covid-19 smit. Í kjölfarið hafa 37 farið í sóttkví, 28 börn og níu fullorðnir.

Tekin voru sýni úr sex einstaklingum, sem ekki hafa sýnt nein einkenni, úr þeim hópi. Vonast er til þess niðurstöður sýnanna liggi fyrir í kvöld. Þau eru liður í því að grafast fyrir um uppruna smitsins og hefta útbreiðslu.

Velta við öllum steinum

Í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands segir að nefndin meti það að með þeim aðgerðum sem þegar hafi verið ráðist í og í ljósi aðstæðna séu líkur á fleiri smitum litlar en ekkert sé útilokað. Smitrakning heldur áfram til að reyna að finna uppruna smitsins og segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn að allt kapp sé lagt á að finna hvernig veiran komst inn í fjórðunginn.

„Ekki hefur tekist að finna uppruna smitsins og óvíst hvort það tekst. Verið er að skoða ferðir hins smitaða meðal annars og hverja hann hefur hitt. Þannig er þess freistað að finna hvaðan smitið gæti hafa komið.“

Meðal þess sem reynt er að grafast fyrir um er hvort smit hafi farið leynt í fjórðungnum í einhvern tíma. „Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því meðan uppruninn er óljós,“ segir Kristján.

Varúð í allt að tvær vikur

Sömuleiðis er of snemmt að segja fyrir um hvort um hópsmit geti verið að ræða en það skýrist eftir því sem frekari upplýsingar berast. Meðan þær liggja ekki fyrir er brýnt fyrir Austfirðinga að hafa varann á.

„Við biðjum fólk á svæðinu að fara sérstaklega varlega meðan þess er freistað að finna út hvort hér leynist fleiri smit. Það ástand gæti varað í einhvern tíma, viku eða jafnvel hálfan mánuð ef ekki vill betur. Við þekkjum það vel að fara varlega og munum halda því áfram og bæta svo aðeins í, nú þegar komið er smit í samfélagið sem við vitum ekki hvaðan barst,“ segir Kristján.

Skólarnir opna aftur á morgun

Skólahald féll niður í skólunum tveimur í dag en gert er ráð fyrir að það hefjist á ný með eðlilegum hætti á morgun. Í tilkynningu aðgerðastjórnarinnar segir að ekki sé talin ástæða til frekari aðgerða að sinni.

Þar eru íbúar minntir á að gæta að sínum persónulegum smitvörnum sem er að halda tveggja metra fjarlægð frá óskyldum aðilum og/eða nota grímu við slíkar kringumstæður, þvo hendur vel og spritta. Þá er ítrekað að fólk fari ekki í vinnu ef það finnur til veikinda heldur leiti ráðgjafar hjá næstu heilsugæslustöð eða í síma 1700.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.