Brýnt að ná ferðamönnum beint inn á Austurland
Oddvitar allra flokkanna í framboði fyrir Norðausturkjördæmi vilja allir sem einn veg Egilsstaðaflugvallar sem mestan í framtíðinni og allir telja þeir brýnt að skapa aðstæður til að gera völlinn að sannri nýrri gátt ferðamanna til landsins.
Þetta kom fram í máli þeirra á framboðsfundi Austurfréttar og Austurgluggans í Valaskjálf í síðustu viku en þar var meðal annars rætt um hvernig mætti fjölga ferðamönnum austanlands. Hugmyndir oddvitana að mestu á pari við það sem ferðaþjónustuaðilar á svæðinu hafa sjálfir hafa lengi kallað eftir.
Framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll eru brýnar að mati allra. Þar fyrst og síðast að lengja völlinn og markaðssetja sem vænlegan kost fyrir erlend flugfélög. Til þess mætti meðal annars nýta flugþróunarsjóð ríkisins. Ingibjörg Ísaksen, Framsóknarflokki, benti á mikilvægi vallarins sem öryggisvallar enda enginn völlur öruggari í landinu. Hún benti einnig að framkvæmdir við völlin væru í samgönguáætlun fráfarandi ríkisstjórnar.
Beint flug austur er undirstaða þess að á svæðinu geti vetrarferðamennska orðið að raunveruleika í einhverjum mæli enda geti smærri hótel og gististaðir í fjórðungum illa farið í fjárfestingar þegar ferðamannatíminn er mikið til aðeins yfir hásumarið.
Engar frekari álögur á ferðaþjónustu
Skattlagning á ferðaþjónustuna fór illa niður í nokkra oddvitana og bæði varðandi gistináttaskatt sem leggst jafnt á alla burtséð frá nýtingu. Þá leist mönnum illa á aukin gjöld á skemmtiferðaskipin sem til stóð að lögð yrðu á um áramótin.
„Við leggjumst gegn öllum hækkunum á greinina,“ sagði Ingvar Þóroddsson frá Viðreisn. „Hún er í mjög harðri alþjóðlegri samkeppni. Það var fundur um daginn í Hofi á Akureyri þar sem við sáum meðal annars kynningu um að við séum að einhverju leyti að tapa í samkeppninni við til dæmis Noreg um ferðamenn sem eru að sækjast eftir vetrarferðamennsku.“
Bæði Logi Einarsson, Samfylkingu, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Miðflokki, töluðu líka um nauðsyn þess að jafna eldsneytisverð milli landsbyggðarflugvallanna og Keflavíkur sem yrði mikil bót.
Fleira þarf til
Þeir Sindri Geir Óskarsson, Vinstri grænum, og Þorsteinn Bergsson, Sósíalistaflokknum, bentu á að fleira þyrfti til að laða að ferðafólk en bættan flugvöll. Vegakerfið væri fjarri því nógu gott með einbreiðum brúm og erfiða fjallvegi með takmarkaðri þjónustu.
„Hér þarf að byggja upp samgönguinnviði; Fjarðarheiðargöng, heilsárveg yfir Öxi, hætta með þessar einbreiðu brýr á hringveginum,“ sagði Sindri. „Við þurfum að gera túristum fært að koma hingað og það sem þeir eru að koma að sjá er ósnortin náttúran. Þurfum að hafa náttúruverndarsjónarmiðin með okkur í þessu. Þeir eru ekki að koma til að sjá uppistöðulón og vindmyllugarða.“
Þorsteinn hafði áhyggjur af orðspori landsins: „Á vegunum þurfum við fyrst og fremst að útrýma einbreiðum brúm. Þær eru slysagildrur og það hafa þegar farist fjölmargir ferðamenn við einbreiðar brýr og þeir koma sannarlega ekki aftur. Slík slys eru hættuleg fyrir orðspor þjóðarinnar þannig að við þurfum að gera átak í einbreiðum brúm og ekki láta nægja að tala um það.“
Sigurjón Þórðarson, Flokki fólksins, lauk svo umræðum um ferðaþjónuna með þeim orðum að gaman væri að geta ferðast innanlands og fá afgreiðslu og upplýsingar á íslensku.
„Þetta eitthvað sem íslenskum ferðamönnum þætti vænt um að verði bætt.“