Búið að opna Öxi öðru sinni

Vegurinn yfir Öxi var opnaður í annað skiptið á þessu vori. Hún var opnuð snemma í mars en lokaðist aftur. Í framhaldinu verður staðan tekin á vegunum yfir Breiðdalsheiði og Mjóafjarðarheiði.

Öxi var upphaflega opnuð 8. mars en lokaðist nokkrum dögum síðar. Ný tilraun var gerð skömmu fyrir páska en þá gekk í mikla snjókomu. Þriðja atrenna var í síðustu viku og eftir um þriggja daga vinnu opnaðist vegurinn á laugardag.

Sveinn Sveinsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi, segir að á Öxi hafi verið kominn talsvert mikill snjór og fastur. Í dag verður unnið að því að breikka ruðninginn en vegurinn er á köflum einbreiður.

Breiðdalsheiði er enn ófær en ekki er talið að snjór sé á löngum kafla á henni. Til stendur að byrja mokstur á henni þegar vinnan er búin á Öxi.

Verið er að kanna stöðuna varðandi Mjóafjarðarheiði. Jeppafólk var þar á ferðinni um helgina og starfsmenn Vegagerðarinnar ætla sér að skoða aðstæður síðar í vikunni. Í framhaldinu verður ákvörðun tekin um mokstur og síðar opnun þar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar