Skip to main content
Bæjarfulltrúarnir Þuríður Lillý Sigurðardóttir og Ragnar Sigurðsson ásamt bæjarstjóranum Jónu Árnýju Þórðardóttur færðu leikskólanum gjafir frá Fjarðabyggð sem nemendur tóku við. Mynd: GG

Byggt til framtíðar með stækkun Dalborgar - Myndir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. nóv 2025 11:03Uppfært 05. nóv 2025 11:07

Viðbygging leikskólans Dalborgar á Eskifirði var formlega tekin í notkun með athöfn í gær. Rými fyrir bæði starfsfólk og leikskólabörn stækkar með því verulega og öll starfsemi skólans færist undir sama þak.

Viðbyggingin er rúmir 440 fermetrar að stærð og var samið um framkvæmdina við Launafl árið 2022. Með henni bætast tvær nýjar deildir við skólann sem verður með fjórar deildir í stað þriggja áður. Yngstu börnin verða á nýjustu deildunum.

Frá árinu 2013 hafa elstu nemendurnir verið í húsnæði Eskifjarðarskóla. Með viðbyggingunni færist öll starfsemi leikskólans undir sama þak. Einni deildanna í eldri hlutanum verður lokað að sinni, en hægt er að endurbæta hana og taka í notkun ef þörf verður á.

Stórbætt aðstaða fyrir starfsfólk og börn

Í nýbyggingunni er nýr inngangur fyrir nemendur, hreyfisalur og stórbætt starfsmannaaðstaða en á Dalborg starfa um 20 starfsmenn.

„Við erum að byggja til framtíðar og við fáum meira rými fyrir bæði börn og starfsfólk, sem léttir á starfinu. Gamla starfsmannaaðstaðan var þröng og stóðst ekki nútímakröfur. Að fá hreyfisal er gífurlegur munur því við höfum ekki haft hann í 15 ár,“ segir Þórdís Mjöll Benediktsdóttir, skólastjóri.

Nýju deildirnar heita Krílaborg og Selaborg. Efnt var til nafnasamkeppni hjá starfsfólki og íbúum þar sem niðurstaðan var að notast við endinguna -borg á heitin. 

Þakkaði fyrir þolinmæðina

Byggingin hefur átt sinn aðdraganda og þörfin var komin strax 2013 þegar elsta deildin var flutt í grunnskólann. Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, sagði í ræðu sinni að framkvæmdin hefði verið á teikniborðinu í 7-8 ár en „dregist af ýmsum ástæðum.“ Í fyrstu útboðunum fengust ekki verktakar. Hún þakkaði starfsfólki, foreldrum og íbúum fyrir þolinmæðina.

Jóna Árný Þórðardóttir sagði að byggingin hefði verið meðal áhersluverkefna þegar hún tók við sem bæjarstjóri vorið 2023. „Við vorum öll sammála um að þetta þyrfti að komast eins hratt áfram og kostur væri.“

Ragnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði viðbygginguna hafa sannað gildi sitt þann mánuð sem hún hefði verið í notkun. Á skólanum hefði verið búið við þröng og oft erfið skilyrði. Nú væri komið í notkun húsnæði þar sem vandað hefði verið til verka.

Framkvæmdum við Dalborg er ekki þar með lokið. Næsta sumar stendur til að fara í endurbætur á eldri hluta húsnæðisins og ljúka frágangi við lóðina.

Mynd: GG

Mynd: GG
Mynd: GG
Mynd: GG
Mynd: GG
Mynd: GG
Af annarri nýju deildanna. Mynd: GG
Mynd: GG
Skiptiherberg á nýju deildinni. Mynd: GG
Hvíldarhergbergi á annarri nýju deildanna. Mynd: GG
Nýi hreyfisalurinn. Mynd: GG
Ný kaffistofa starfsfólks. Mynd: GG
Mynd: GG