Byrjað að bóka í viðtöl hjá Pieta-samtökunum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. feb 2025 14:37 • Uppfært 25. feb 2025 14:40
Húsnæði á vegum Pieta, meðferðar- og forvarnasamtaka gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, verður formlega opnað á Reyðarfirði á fimmtudag. Strax þann dag er hægt að fá viðtöl hjá sérfræðingum samtakanna.
„Við bjóðum upp á viðtöl sem annars vegar eru ætluð þeim sem glíma við sjálfsvígsvanda eða sjálfsskaða, hins vegar aðstandendur þeirra sem eiga einhvern að sem glímir við slíkan vanda eða hafa misst einhvern úr sjálfsvígum,“ segir Ellen Calmon, framkvæmdastjóri samtakanna.
Samtökin hafa fengið aðstöðu hjá fjölskyldusviði Fjarðabyggðar að Búðareyri 2, gamla pósthúsinu, á Reyðarfirði. Sérfræðingar þeirra munu verða þar til viðtals einu sinni í mánuði með boði um eftirfylgni í gegnum fjarviðtöl.
Samtökin hafa á sínum snærum félagsráðgjafa, sálfræðinga, lækni og iðjuþjálfa. Félagsráðgjafinn verður sá sem býður upp á viðtölin á fimmtudag. Meðferðarviðtöl Pieta-samtakanna eru unninn eftir ákveðinni aðferðafræði sem byggir á viðurkenningu og eftirliti en allir meðferðaraðilar þeirra hafa leyfi frá Landlækni.
Á fimmtudag eru í boði fjögur viðtöl frá hádegi. Hægt er að bóka þau í síma 552-2218 á skrifstofutíma Pieta samtakanna, sem er frá 9-16. Ellen segir að vel þekkt sé að fleiri en einn, svo sem heilar fjölskyldur, mæti saman í tíma. Um morguninn verður opnun Pieta skjólsins fagnað með samkomu í sal Austurbrúar að Búðareyri 1.
Uppbygging skjólsins byggir á samningi sem Fjarðabyggð gerði fyrr í þessum mánuði við samtökin. Ellen segist þakklát fyrir frumkvæði sveitarfélagsins. „Ég vil hrósa bæjarstjórninni fyrir að taka þetta mál til sín með að gera tillögu að samstarfssamningi og bjóða fram húsnæði. Það er greinilegt að henni er annt um geðheilbrigði íbúa. En við vitum líka að þörfum er mikil því það hefur verið ákall eftir þjónustunni.“