Dæmdir fyrir að brjótast inn og stela áfengi
Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt tvo karlmenn um þrítugt fyrir að brjótast inn og stela talsverðu magni af áfengi. Annar mannanna var einnig dæmdur fyrir umferðarlagabrot.
Ekki er tiltekið hvar mennirnir tveir brutust inn en ljóst er að þar sem þeir fóru inn var að finna talsvert magn af áfengi. Þeir brutust inn á tveimur stöðum að kvöldi í miðri viku með því að spenna upp útidyrahurðir.
Á öðrum staðnum höfðu þeir upp úr krafsinu 10 stórar bjórdósir, 20 litlar flöskur af hvítvíni, jafn margar litlar flöskur af freyðivíni og einn 25 lítra bjórkút. Á hinum staðnum stálu þeir fimm flöskum af sterku áfengi, 25 bjórdósum og loks sex dósum af orkudrykkjum. Lögregla fann góssið við húsleit á heimilum mannanna daginn eftir.
Sá mannanna sem vægari dóminn fékk var dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár. Hann var seinast dæmdur árið 2019, þá í 60 daga fangelsi skilorðsbundið fyrir að keyra próflaus og fleiri brot, meðal annars þjófnað.
Fangelsisdómur fyrir ítrekuð brot
Hinn maðurinn fékk þyngri dóm því við hans mál bættist ákæra fyrir umferðar- og fíkniefnabrot, auk þess sem hann á lengri brotaferil að baki.
Sá var stöðvaður við akstur sumarið 2024. Hann framvísaði bæði fölsuðu ökuskírteini og var með ranga númeraplötu á bílnum, fyrir utan að vera undir áhrifum kannabiss og amfetamíns. Til að bæta gráu ofan á svart fannst í bílnum 10 grömm af maríjúana, 10 töflur af LSD og 9,5 af MDMA.
Maðurinn hefur sex sinnum hlotið refsingar, oftast fyrir umferðarlagabrot. Haustið 2018 samþykkti hann að greiða sekt og sæta ökuleyfissviptingu fyrir að keyra dópaður. Síðsumars 2019 fékk hann svipaða refsingu fyrir sams konar brot, sem var framið áður en hitt var klárað.
Í febrúar árið 2020 fékk hann átta mánaða fangelsi, skilorðsbundið, fyrir líkamsárás. Vorið 2022 hlaut hann sekt og tímabundna ökuleyfissviptingu fyrir að keyra undir áhrifum fíkniefna og á útrunnu ökuskírteini.
Í febrúar 2023 greiddi hann sekt fyrir að hafa árið áður ekið próflaus. Með dómi í apríl 2023 var hann sviptur ökurétti fyrir ítrekuð umferðarlagabrot, fyrir að hafa sumarið 2022 þrisvar verið gripinn dópaður undir stýri. Hann var einnig dæmdur fyrir það í 45 daga fangelsi.
Nú var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi en helmingur refsingarinnar er skilorðsbundinn í tvö ár. Ævilöng svipting ökuréttar er áréttuð.
Báðir mennirnir játuðu brot sín undanbragðalaust. Þeim var einnig gert að greiða málskostnað.