Dæmdur fyrir blekkingar í viðskiptum og skjalafals

Fyrrverandi stjórnandi og hlutaeigandi raftækjaverslunarinnar Myndsmiðjunnar á Egilsstöðum hefur verið dæmdur í 10 mánaða fangelsi, þar af átta mánuði skilorðsbundið, fyrir fjársvik og skjalafals. Hann var sakfelldur fyrir hluta á ákærum fyrir að blekkja lánveitendur en sýknaður af ákveðnum atriðum þar sem viðskiptafélaga hans hefði átt að vera viss áhætta ljós.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa blekkt viðskiptafélaga sinn til að lána Myndsmiðjunni 34 milljónir króna í sjö millifærslum frá ágúst 2020 fram í janúar 2021. Samkvæmt lánasamningi átti lánsféð að fara í að kaupa síma af bandarískum heildsala og selja til íslenskra stórverslana.

Stjórnandinn fyrrverandi sagðist í ferð til Bandaríkjanna 2019 hafa hitt æskuvin sinn, sem starfaði hjá heildversluninni og eftir heimkomuna sagt viðskiptafélaga sínum frá viðskiptatækifæri. Fyrir dómi kvaðst stjórnandinn hafa rekist á vandkvæði við innflutninginn en komist að því að hann gæti keypt síma af innlendum heildsala á sambærilegu verði.

Símarnir voru seldir í smásölu í versluninni, að mestu fyrir jólin 2020 og gekk vel. Á ákveðnum tímapunkti sagði hann viðskiptafélaga sínum að búið væri að selja fyrir 30 milljónir og þeir væru að moka inn á viðskiptunum.

Fyrir dómi viðurkenndi stjórnandinn að hafa ekki veitt viðskiptafélaga sínum réttar upplýsingar um viðskiptin. Hann sagðist hafa vitað að hann segði ekki satt, en að sama skapi ekki talið sig vera að gera neitt rangt. Þá hefði viðskiptafélaginn aldrei gengið sérstaklega á eftir sönnunum um hvernig viðskiptin færu fram. Sá bar þó fyrir dómi og byggði kæru sína á lögreglu á því að innflutningurinn hefði verið forsenda þess að hann fór í viðskiptin.

Fyrst lánað til að að leysa úr lausafjárstöðu


Lánveitingar milli félags í eigu viðskiptafélagans og Myndsmiðjunnar, hófust árið 2019. Fjárhagur verslunarinnar var gjarnan þungur á vorin og haustin. Þeir höfðu átt í viðskiptasambandi í gegnum fleiri félög í nokkrum árum og sagðist viðskiptafélaginn fyrsta lánið, upp á fimm milljónir króna, hafa verið greiða þannig hægt væri að halda rekstri Myndsmiðjunnar gangandi með að greiða laun og opinber gjöld. Slík lán námu alls 6,5 milljónum en Myndsmiðjan endurgreiddi tvær milljónir.

Óumdeilt er að fjárhagur Myndsmiðjunnar batnaði árið 2020 og var rýmið meðal annars notað til að semja um nýtt lán við Arion banka. Þá þótt sýnt að hvorki ákærði né aðilar í tengslum við hann hefðu tekið fé út úr fyrirtækinu á annan hátt heldur en það sem töldust eðlileg laun.

Dómurinn taldi sannað að stjórnandinn fyrrverandi hefði viðhaft blekkingar með að skýra ranglega frá hvernig símaviðskiptunum væri háttað. Á móti hafi viðskiptafélaganum mátt vera ljóst að Myndsmiðjan stæði ekki traustum fótum, meðal annars þar sem hún hefði ekki getað staðið við fyrri lán sem veitt voru. Þá lægi ekkert fyrir um að innflutningurinn hefði gefið neitt tryggari ávöxtun heldur en þau viðskipti sem sannarlega fóru fram. Þess vegna var stjórnandinn sýknaður af þessum hluta ákærunnar.

Falsaði reikning til að fá lán


En þegar kom fram á árið 2021 var sambandið tekið að súrna í ljósi vanefnda á endurgreiðslum sem viðskiptafélaginn gekk á eftir. Stjórnandinn svaraði að Arion banki hefði án heimildar fryst reikning Myndsmiðjunnar og þar með væri læst inni tæplega 25 milljóna króna greiðsla frá Elko fyrir símakaupum. Hið raunverulega vandamál var stærra, Elko keypti aldrei síma.

Meðal annars að undirlagi viðskiptafélagans eftir þessa sögu leitaði stjórnandinn í mars 2021 til Faktoríu, sem sérhæfir sig í að lána fyrirtækjum sem eiga í lausafjárvanda til dæmis vegna ógreiddra krafna. Stjórnandinn setti sig í samband við Faktoríu með ósk um lán og beiðni um að hafa ekki samband við Elko, því það gæti spillt viðskiptasambandinu. Fyrir dómi bar viðskiptastjóri hjá Faktoríu að slík beiðni væri mjög óvenjuleg.

Engu að síður veitti Faktoría lán upp á tæpar 25 milljónir króna eftir að hafa séð reikning til Elko sem stjórnandinn falsaði. Tuttugu milljónir af láninu voru nýttar til að endurgreiða hluta skuldanna við viðskiptafélagann. Sá gekkst þó í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu, sem átti að vera varaveð. Það gerði hann eftir að hafa séð skjáskot sem áttu að sýna innistæðu Myndsmiðjunnar hjá bankanum. Þá mynd falsaði stjórnandinn. Lánið gjaldféll og fór svo að félag í eigu viðskiptafélagans greiddi það loks upp í apríl árið 2022. Upphæðin nam 28,6 milljónum með kostnaði.

Stjórnandinn játaði falsanirnar en sagðist hafa gripið til þessa ráðs vegna aðgangshörku viðskiptafélagans við að fá skuldirnar endurgreiddar. Hann hefði hringt, sent tölvupósta og SMS og spurt við önnur tækifæri hvar peningarnir væru. Stjórnandinn kvaðst illa þola álag eða þrýsting og þarna hefði hið andlega álag verið orðið slíkt að hann áttaði sig ekki lengur á eigin gjörðum.

Sagði viðskiptabankann hafa fryst reikningana


En lánið frá Faktoríu var aðeins gálgafrestur og þegar komið fram fram á haustið 2021 var skuld Myndsmiðjunnar, við félög viðskiptafélagans, komin í tæpar 40 milljónir króna. Var um að ræða lán frá október 2019 fram í janúar 2021 og áfallinn kostnað. Félögin gerðu í október það ár samkomulag um afborganir. Veð var tekið í fasteign ákærða en einnig tekið fram að skuldabréf Faktoríu yrði greitt upp innan mánaðar frá uppgjör við Arion banka.

Stjórnandinn hafði þá falsað gögn sem áttu að sanna viðurkenningu bankans á að innistæða Myndsmiðjunnar hefði verið fryst án gildrar ástæðu og bankinn viðurkenndi bætur vegna þessa. Meðal hinna fölsuðu gagna var tölvupóstur frá þáverandi aðstoðarbankastjóra. Arion kærði stjórnandann fyrir skjalafals eftir að viðskiptafélaginn spurði bankann um hinar frystu innistæður eftir að Myndsmiðjan varð gjaldþrota í janúar 2022.

Stjórnandinn játaði falsanirnar en hafnaði þeirri sök sem hann var borinn um að það hefði hann gert til að fá lengri greiðslufrest. Hann bar við minnisglöpum vegna andlegra erfiðleika á verknaðarstundu. Hann hefði ekki talið lánin frá viðskiptafélaganum gjaldfallinn en ákveðið að reyna að kaupa sér frið til að losna við sífellt áreiti.

Viðskiptafélaginn kannaðist við að hafa verið ágengur en aldrei viðhaft hótanir, enda hefði stjórnandinn ávallt lofað endurgreiðslu. Að lokum hefði komið í ljós að það væri því sagan þyrfti að haldast sem lengst gangandi. Dómurinn taldi sannað að með þessum gjörningum hefði stjórnandinn ástundað blekkingar í viðskiptum.

Kyrrsetning upphafið að lokun


Viðskiptafélaginn lagði fram kæru hjá lögreglu seint á árinu 2021. Eftir það urðu aðgerðirnar verulega íþyngjandi. Í kjölfarið voru eignir stjórnandans kyrrsettar. Í kjölfarið varð Myndsmiðjan gjaldþrota. Fram kom hjá stjórnandanum að þær aðgerðir hefðu haft veruleg áhrif á hann persónulega.

Meðal ásakananna í garð stjórnandans var að hann hefði óskað eftir lánunum, vitað að Myndsmiðjan gæti aldrei borgað þau til baka. Dómurinn tók ekki undir þetta, ósannað hafi verið að staðan hefði verið orðin það afleit árin 2020 og 21, meðal annars í ljósi þess að félagið varð ekki endanlega gjaldþrota fyrr en í mars 2022.

Þá hélt stjórnandinn því fram að hann hefði aldrei stofnað til þeirra skuldbindinga fyrir hönd félagsins sem hann gerði, hefði hann talið félagið á leið í þrot. Hann var afskráður sem formlegur framkvæmdastjóri á árinu 2020 en hélt samt áfram fjárumsýslu. Hann hélt því fram að staða hans til að fylgjast með stöðunni hefði versnað eftir jólin 2020 en talið félagið gjaldfært.

Ákærði var dæmdur í 10 mánaða fangelsi, þar af átta mánuði skilorðfundið til tveggja ára. Hann þarf einnig að greiða helming sakarkostnaðar, 1,4 milljónir króna. Einkaréttarkröfu viðskiptafélagans, upp á alls 73 milljónir króna, var vísað frá þar sem einkamál er í gangi þeirra á milli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar