Orkumálinn 2024

Dæmdur fyrir tilhæfulausa árás á unglingsstúlku

Karlmaður hefur verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi til þriggja ára fyrir tilhæfulausa og hrottalega árás á unglingsstúlku á Reyðarfirði í október í fyrra.

Samkvæmt dóminum vaknaði maðurinn upp í vímumóki um klukkan sex að morgni með ranghugmyndir um að mannvera á ferð fyrir utan glugga hans ætti sök á ruslaragangi á heimili hans. Hann hafi farið á eftir henni með það í huga að veita henni ráðningu. Fólkið bjó skammt hvort frá öðru en þekktist ekki þótt stúlkan kannaðist við manninn í sjón.

Þar var á ferð unglingsstúlka á leið í líkamsrækt með heyrnartól yfir eyrun. Hún átti því sér einskis ills von er maðurinn ráðist að henni, tók hana hálstaki, snéri niður í jörðina og sló og sparkaði í höfuð hennar. Hún hlaut áverka á höfði og andliti við atganginn.

Fram kemur að maðurinn hafi togað og haldið stúlkan þar til hún slapp á hlaupum og kom sér heim til sín. Var lögregla kvödd til og handtók hún manninn skömmu síðar. Hann var látinn laus að loknum yfirheyrslum síðar um daginn, hafandi skrifað undir yfirlýsing um tímabundið nálgunarbann gagnvart stúlkunni.

Maðurinn játaði árás sína en mótmælti ákæru um brot á barnaverndarlögum sem og fjárhæð miskabótakröfu stúlkunnar.

Er því enginn vafi um árásina en vafi um afleiðingar hennar, sönnunargögn skorti um orsakir tannáverka stúlkunnar. Vegna ungs aldurs stúlkunnar var maðurinn sakfelldur fyrir brot á barnaverndarlögum. Í niðurstöðu dómsins segir að árásin hafi verið ruddaleg, hættuleg og tilefnislaus.

Á móti er játning mannsins og viðurkenning á bótaskyldu metin honum til bóta auk þess sem hann hafi ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot þótt hann hafi tvisvar undirgengist lögreglusátt vegna fíkniefnaakstur.

Þá er iðrun mannsins metin honum í hag en fram kemur að fljótlega eftir árásina hafi hann í fyrsta sinn á ævinni leitað sér hjálpar vegna fíknar sinnar. Við húsleit í kjölfar árásarinnar fundust á heimili mannsins 0,82 grömm að kannabisi. Hann var dæmdur til að greiða 55.000 krónur í sekt vegna efnanna.

Fyrir árásina var maðurinn dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, sem skilorðsbundið er til þriggja ára. Hann þarf einnig að greiða stúlkunni 450 þúsund krónur í miskabætur, en bótakrafan hljóðaði upp á 1,5 milljónir. Þá verður maðurinn að greiða sakarkostnað upp á ríflega 720 þúsund krónur. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.