Djúpivogur samþykkir sameiningarviðræður

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps varð í gærkvöldi síðust til að samþykkja að taka þátt í sameiningarviðræðum fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi. Gert er ráð fyrir að viðræðum verði lokið áður en árið 2020 gengur í garð.

Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps varð fyrst til að samþykkja að hefja formlegar sameiningarviðræður en Seyðisfjarðarkaupstaður og Fljótsdalshéraðs gengu frá sinni samþykkt á miðvikudag.

Viðræðurnar byggja á skoðanakönnum sem gerð var í mars meðal íbúa í sex sveitarfélögum. Íbúar í þeim fjórum sem nú hafa ákveðið að hefja formlegar viðræður voru þeir sem sýndu jákvæðni gagnvart mögulegri sameiningu.

Í rökstuðningi með tillögunni segir að horft sé til þess að sameiningin leiði til bættrar þjónustu, öflugri stjórnsýslu og auknum líkum á að ná árangri í byggða- og samgöngumálum sem unnið hefur verið að árum saman.

Samstarfsnefnd skilar af sér til sveitarfélaganna þannig að hægt verði að leggja niðurstöður vinnunnar í dóm kjósenda fyrir lok árs 2019. Nefndin hefur þó svigrúm til að endurskoða tímarammann ef þurfa þykir.

Fulltrúi Fljótsdalshéraðs mun kalla nefndina saman til fyrsta fundar og er gert ráð fyrir að hún hefji störf í byrjun nóvember.

Frá Djúpavogshreppi munu Gauti Jóhannesson, Þorbjörg Sandholt og Bergþóra Birgisdóttir sitja í nefndinni. Hildur Þórisdóttir, Elvar Snær Kristjánsson og Eygló Jóhannsdóttir verða fulltrúar Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs tekur ákvörðun um þrjá fulltrúa sveitarfélagsins á fundi á mánudag. Borgarfjarðarhreppur tilnefndir tvo fulltrúa sem verða Jakob Sigurðsson og Helgi Hlynur Ásgrímsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar