Drangur er sennilega ónýtur segir skipstjórinn
Steinar Sigurgeirsson skipstjóri á Drangi segir að skipið sé sennilega ónýtt og verði sent í brotajárnsvinnslu. Um tugmilljóna króna tjón sé að ræða fyrir útgerðina.Steinar reiknar með að Drangur verði hífður upp úr Stöðvarfjarðarhöfn í vikunni og líklegt að kranabíll verði fenginn til þess verks á fimmtudaginn kemur og þá verður sjó dælt úr því.
Enn hefur ekki komið í ljós hvað olli þessu óhappi en Drangur var tiltölulega nýkominn úr slipp, það er í vor.
„Í ljósi þess að Drangur var tiltölulega nýkominn úr slipp er undarlegt að skipið sökkvi svona skyndilega,“ segir Steinar.
Fram kemur í máli hans að fyrir utan tjónið sé ljóst að talsvert af fólki muni missa vinnu sína vegna óhappsins
„Við höfum verið á sæbjúgaveiðum og höfum lagt upp aflann á Stöðvarfirði,“ segir Steinar. „Þaðan er honum svo ekið suður í vinnslu áður en hann er sendur utan,“ segir hann.
Það munu einkum vera Kínverjar sem kaupa sæbjúgun en þar í landi þykja þau herramannsmatur.