Drangur kominn á flot, verður fluttur annað í höfninni

Togskipið Drangur er kominn á flot í Stöðvarfjarðarhöfn. Það er enn verið að dæla úr honum þar sem hann hallar aðeins á aðra hliðina en því verki ætti að vera lokið síðar í dag.


Bjarni Stefán Vilhjálmsson hafnarvörður á Stöðvarfirði segir að um leið og Drangur er kominn á réttan kjöl og búið að þrífa skipið verður hugað að því að flytja hann innan hafnarinnar.

„Það kemur til greina að flytja Drang yfir í gömlu höfnina,“ segir Bjarni Stefán. „Það þarf allavega að koma skipinu af þeim stað sem það er núna þar sem sjógangur er hvað mestur í höfninni.“

Aðspurður um hvort búið sé að meta hve mikið af olíu hafi lekið úr Drangi segir Bjarni Stefán svo ekki vera. „Það verður ekki gert fyrr en búið er alveg að dæla sjó úr skipinu,“ segir hann.

Hvað flutning á Drangi innan hafnarinnar segir Bjarni Stefán að það muni líða einhver tími þar til slíkt verður gert.

„Það þarf fyrst að þrífa skipið og ganga vel frá því áður en við tökum ákvörðun um hvar það verður geymt í höfinni áður en Drangur verður fluttur suður,“ segir hann

Mynd: Albert Ó. Geirsson. Ath. myndin var tekin fyrir hádegið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.