Skip to main content

Drjúgt fjárfest í höfnum Austurlands síðustu árin

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. okt 2025 14:21Uppfært 01. okt 2025 14:26

Fjárfestingar bæði Fjarðabyggðar og Múlaþings í höfnum sveitarfélaganna árin 2020 til 2024 voru meðal þeirra allra mestu af sveitarfélögum á landsbyggðinni samkvæmt nýlegri skýrslu.

Það var Íslenski sjávarklasinn sem vann skýrsluna um fjárfestingar í höfnum landsins fyrir Hafnasamband Íslands fyrir skemmstu en þar bæði litið til fjárfestinga síðustu árin og fjárfestingarþörfina til næstu fimm ára annars vegar og næstu fimmtán ára hins vegar.

Að frátöldum Faxaflóahöfnum og Þorlákshöfn var langmest fjárfesting í höfnum og hafnarinnviðum hjá Fjarðabyggð á ofangreindum tíma en heildarfjárfestingin á tímabilinu reyndist rétt rúmlega 2,5 milljarðar króna. Allt það fjármagn fékkst beint í hafnarsjóði sveitarfélagsins.

Hjá Múlaþingi nam fjárfestingin á sama tíma kringum 1,3 milljarð króna en ólíkt Fjarðabyggð naut Múlaþing stuðnings hins opinbera fyrir tæplega helmingi þeirrar upphæðar.

Fjárfesta þarf meira

Þó um stórar upphæðir sé að ræða þarf meira til enda gera hafnarsjóðir bæði Fjarðabyggðar og Múlaþings áfram ráð fyrir fjárfestingarþörf til ársins 2030 fyrir vel rúmlega fimm milljarða alls. Einn stærsti kostnaður beggja aðila er uppsetning stálþilja á því tímabili.

Hugsanlega vegna metnaðarfullrar uppbyggingar næstu fimm árin er fjárþörf hafna sveitarfélaganna þó töluvert minni upp frá því til ársins 2040. Fjárfestingar Múlaþings þau tíu árin áætluð kringum 2,5 milljarða og lítið eitt lægra í Fjarðabyggð.

Öll þessu uppbygging hafna á Austurlandi segir í skýrslunni að skapi verulegar áskoranir í fjármögnun en skýrsluhöfundar meta það svo að fjárþörf austfirsku sveitarfélaganna til ársins 2040 sé vel viðráðanleg og jafnvel sé umframgeta til staðar í tilfelli Fjarðabyggðar.

Skýrsluna í heild sinni má finna hér.