Logi: Ég er fullur bjartsýni fyrir framhaldinu

Samfylkingin hlaut 10,5% atkvæða í Norðausturkjördæmi í Alþingiskosningunum um helgina. Flokkurinn tapar því tæplega 4% frá síðustu kosningum og missa einn þingmann en Albertína Friðbjörg Elíasdóttir var jöfnunaringmaður kjördæmisins eftir kosningarnar árið 2017. Logi Einarsson, formaður flokksins, segir það þó ekki gefa tilefni til mikilla breytinga í forystu flokksins að svo stöddu.

Niðurstaða kosninganna í ár er sú næstversta hjá Samfylkingunni í kjördæminu frá stofnun flokksins fyrir rúmlega tveimur áratugum. Samfylkingin fékk 8% atkvæða árið 2016 og 10,6% árið 2013.


Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, segir niðurstöðu kosninganna vera vonbrigði. Samfylkingin hafi vonast eftir því að koma Hildi Jönu Gísladóttur, sem skipaði 2. sætið á þing. Hann segir Hildu hafa unnið vel á sveitarstjórnarstiginu og þekki málefni sveitarfélaga á landsbyggðinni vel og slíka rödd hafi flokkurinn viljað fá á þing. „Ég er fullur bjartsýni fyrir framhaldinu og hlakka til að vinna vel fyrir Norður- og Austurland. Stóri sigurvegari kosninganna í kjördæminu og á landsvísu var Framsóknarflokkurinn og það er rétt að óska honum til hamingju með það,“ segir Logi.


Aðspurður hvort kosningaúrslitin feli í sér að breytinga sé þörf innan forystunnar segir Logi svo ekki endilega vera. Hann segir forystuna þurfa að setjast niður á næstunni og fara yfir stöðu mála en ekki verði farið í neinar miklar breytingar. Hann horfir til landsþings á næsta ári og segir að þar þurfi flokkurinn að fara vel yfir stefnu sína og það sem betur má fara.


Logi segist gjarnan vilja sjá meiri samvinnu milli vinstri flokka á Íslandi, og bendir á að samvinna með Vinstri grænum, sem sé náskyldur flokkur, mætti vera betri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.