Skip to main content
Kubbabergsnáma á Brunahvammshálsi. Mynd: GG

Ein besta efnisnáma landsins á Vopnafjarðarheiði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. okt 2025 09:46Uppfært 10. okt 2025 09:37

Jarðfræðingur hjá Vegagerðinni segir það mýtu að efni á Íslandi sé ónýtt til vegagerðar. Ein besta náma landsins er staðsett á Vopnafjarðarheiði. Malarvegir eru enn meirihlutinn af vegakerfi landsins og liggja undir skemmdum vegna skorts á viðhaldi.

Rætt er við Hafdísi Eygló Jónsdóttir, jarðfræðing hjá Vegagerðinni í nýjasta hefti Framkvæmdafrétta sem stofnunin gefur út. Hún hefur starfað hjá Vegagerðinni í tæpan aldarfjórðung en hefur nú ákveðið að láta af störfum.

Í viðtalinu er Hafdís meðal annars spurð hvort rétt sé að nær allt efni á Íslandi sé óhæft til vegagerðar. Því svarar hún ákveðið: „Það er mýta, og bara algert bull.“

Hún bætir við að á Íslandi séu margar góðar námur, sumar með efni af sama styrk og flutt er inn frá Noregi. Hins vegar sé það ekki alltaf á réttum stað og dýrt sé að flytja það langar leiðir. Hún nefnir sérstaklega tvær námur á Íslandi með góðu efni, önnur þeirra er á Kubbabergsnáma á Brunahvammshálsi á Vopnafjarðarheiði.

Grátlegt að sjá malarvegi skemmast vegna viðhaldsleysis

Hafdís Eygló hefur starfað á Akureyri og því komið að margvíslegum verkefnum á Austurlandi. Malarslitlag – eða einfaldlega malarvegir – eru hennar sérfag. Malarvegir eru enn meirihluti vegakerfisins, 56%, þótt stór hluti þess sé enn á hálendinu. Á austursvæði Vegagerðarinnar er hlutfallið 49%.

Hafdís líkir malarslitlagi við jólaköku. Í því verði fínefni, sandur og möl að vera í réttum hlutföllum. Ef þau brenglast þá skemmist malarvegurinn. Hún lýsir áhyggjum af skorti á viðhaldi malarvega.

„Þessi málaflokkur er í raun sveltur og það getur verið grátlegt að sjá góðan malarveg skemmast vegna of lítils viðhalds. Ef viðhaldinu er ekki sinnt, ef til dæmis er farið of sjaldan að hefla og rykbinda þá rýkur fínefnið úr veginum og hlutföllin í „jólakökunni“ brenglast. Þar með er malarslitlagið sem á að verja malarveginn, ekki lengur eins og það á að vera.“

Fóðraði hefilstjóra á sandi og möl

Hafdís hefur árum saman kennt á námskeiðum fyrir hefilstjóra Vegagerðarinnar. Hápunktur þeirra er þegar hún fær hefilstjórana til að smakka á efninu sem þeir eru að vinna með. Það er gert til að leita að leir sem skiptir miklu máli í efninu.

„Ef þú rekur tunguna í fínefni malarslitlagsins, og smakkar, getur þú metið hvort það sé leir í efninu. Leir, sem kornastærð, er hrikalega smár og þegar þú setur tunguna í efnið og það inniheldur leir, þá bráðnar efnið upp í þér. Ef það er meira af silti þá klingir það á milli tannanna,“ segir hún.

Þessi hluti námskeiðanna er mörgum minnisstæður miðað við orðsendingar sem hún fékk í minningabók sem hún fékk við starfslokin. „Fyrsta konan til að gefa mér sand og möl til að borða,“ skrifaði einn. „Mun alltaf minnast þín sem manneskju sem lét mig smakka drullu á fullorðinsárum,“ ritaði annar.