Einar Már: Ef vel tekst til þá gerbreytir þetta Austurlandi

Einar Már Sigurðarson, formaður Austurbrúar og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, ber miklar væntingar til væntanlegs háskólanáms á Austurlandi. Möguleikarnir til framtíðar séu miklir þótt fyrst verði aðeins byrjað á einni grein.

„Það er búið að vinna að þessu áratugum saman og ef vel tekst til þá getur þetta gjörbreytt umhverfi okkar,“ segir Einar Már.

Hann skrifaði, fyrir hönd Austurbrúar, á laugardag undir samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið um næstu skref í uppbyggingu háskólanáms á Austurlandi. Samkomulagið gerir ráð fyrir að næsta haust hefjist kennsla í frumgreinadeild, sem undirbýr nemendur fyrir háskólanámið og ráðnir tveir kennarar og tveir almennir starfsmenn til að undirbúa BS nám í hagnýtri iðntæknifræði sem fari af stað haustið 2022.

Ekkert gerist án ráðuneytisins

Til að vinna að þessu verður skipaður stýrihópur og ráðinn verkefnastjóri. „Þessi samningur tryggir að ráðuneytið er með í þessu ferli sem við höfum verið í undanfarin tvö ár. Ráðuneytið leikur lykilhlutverk, án þess gerist þetta ekki.

Það leggur til fulltrúa í stýrihópinn og verkefnastjóra. Það er mikilvægt fyrir okkur að ná málinu í þennan farveg, það hefur nú verið tryggt og því erum við mjög ánægð,“ segir Einar Már.

Staðsetning óákveðin

Stýrihópurinn á ærið verkefni framundan, til dæmis hefur hvorki frumgreinadeildinni né háskólasetrinu verið valinn staður, þótt mikil áhersla sé á staðnám. „Það er meðal næstu skrefa. Við höfum unnið mikla undirbúningsvinnu og eigum mikið efni, til dæmis grunn að iðntæknifræðinni.“

Námsbrautir eru ekki nóg heldur þarf fólk í námið. Til þess er frumgreinadeildin hugsuð. „Á annað hundrað nemenda hafa útskrifast úr stóriðjuskóla Fjarðaáls, síðan hentar deildin fyrir iðnmenntað fólk eða stúdenta sem hafa ekki þann grunn sem til þarf í iðntæknifræðina. Við þurfum að geta tryggt nægan fjölda nemenda.“

Þekking byggist upp á Austurlandi

Hann sér fyrir sér að námið vindi upp á sig þegar fram í sækir. „Við leggjum mikið upp úr staðnámi þannig að sérfræðingarnir séu hér og þekkingin byggist upp. Í framhaldinu er síðan hægt að tryggja rannsóknir. Þótt byrjað verði á iðntæknifræðinni getum við séð fyrir okkur fleiri greinar síðar, hér skortir leikskólakennara og jafnvel grunnskólakennara.

Það er lengst frá Austurlandi í háskóla af öllum landssvæðum og það eru til tölur um að það hallar á Austurland í fjármagni til háskóla og rannsókna. Því er hægt að setja upp dæmi sem sýnir að landshlutinn á mikið inni í því fjármagni. Vonandi tekst að ná einhverju af því til baka. Því miður er menntunarstig hér lægra en annars staðar og þetta verður vonandi stór þáttur í að bæta það.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.