Orkumálinn 2024

„Eins og setja niður kartöflur í annarra garði“

Íbúar á Seyðisfirði hafa hrundið af stað undirskriftasöfnun til að mótmæla áformum um fiskeldi í firðinum. Forsprakki söfnunarinnar hefur áhyggjur af lífríki fjarðarins og ásýnd og telur samráð skorta um áformin.

„Við fréttum af þessum áformum í gær og okkur finnst það ekki góð byrjun á samstarfi að við lesum um það í fréttum að það eigi að fullnýta fjörðinn,“ segir Þóra Bergný Guðmundsdóttir, íbúi á Seyðisfirði.

Skipulagsstofnun auglýsti í byrjun vikunnar frummatsskýrslu Fiskeldis Austfjarða um eldi í firðinum til kynningar og umsagnar. Gert er ráð fyrir að ala alls 10 þúsund tonn af laxi, 6.500 tonn af frjóum fiski og 3.500 af ófrjórum í samræmi við mat á burðarþoli fjarðarins. Fyrirtækið er þegar með eldi í Fáskrúðsfirði og Berufirði.

Eitt svæðið innan helgunarsvæðis hafnarinnar

Gert er ráð fyrir fjórum eldissvæðum, í Selstaðavík, Sörlastaðavík, Skálanesbót og undir Háubökkum. Síðastnefnda svæðið er til vara og eru tvær staðsetningar til skoðunar innan þess.

Það svæði stendur í Seyðfirðingum þar sem það er nálægt bænum. „Ég horfi á þetta svæði út um gluggann hjá mér. Við stundum sjósund og böðum okkur þarna í víkinni. Fjörðurinn er langur og djúpur og ég óttast að hann ráði ekki við að hreinsa sig af menguninni.“

Svæðið undir Háubökkum er reyndar það nálægt að tilheyrir helgunarsvæði Seyðisfjarðarhafnar og segir að Fiskeldi Austfjarða muni hafa samráð við sveitarfélagið um það svæði.

Telja eldið ekki heyra undir lög um haf- og strandsvæði

Annað atriði sem fer öfugt ofan í marga Seyðfirðinga er að Fiskeldi Austfjarða telur lög sem sett voru sumarið 2018 um skipulag haf- og strandsvæða ekki eiga við um eldið í Seyðisfirði þar sem það var komið í ferli töluvert áður og lögin séu ekki afturvirk.

Fiskeldi Austfjarða sendi upphaflega drög að matsáætlun um fiskeldið í Seyðisfirði til Skipulagsstofnunar í júní 2014 og síðar endanlega matsáætlun í febrúar 2017. Í frummatsskýrslunni segir þó að skipulagsáætlanir sveitarfélagsins verði hafðar til hliðsjónar við mat á umhverfisáhrifum enda sé mikilvægt að starfsemin falli að áætlun sveitarfélagsins.

„Okkur finnst þetta ofríki, eins og við sem búum hér fáum engu ráðið og það er óþægilegt. Þetta er eins og að setja niður kartöflur í annarra manna garði. Það hafa verið starfandi bæjarstjórnir hér síðan 1895 og svo fáum við þetta allt í einu, rétt eftir sameiningu eins og enginn sé spurður. Það eru vonbrigði.“

Veruleg neikvæð áhrif á ásýnd

Í niðurstöðukafla frummatsskýrslunnar segir að eldið muni hafa veruleg jákvæð áhrif á hagræna og félagsleg þætti en óveruleg áhrif á flesta aðra þætti. Ásýnd á botndýralíf eru metin talsverð neikvæð en staðbundin og afturkræf en áhrif á landslag og ásýnd talsvert neikvæð en afturkræf.

Þóra segist hafa áhrif af lífríki fjarðarins. „Maður hefur áhyggjur af að hér eigi að drepa allt líf í firðinum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fiskeldi veldur deilum og það er ekki að ástæðulausu. Hér hefur áður verið reynt laxeldi og þá virtust aðstæður í firðinum ekki henta.“

Andstaða fyrstu viðbrögð bæjarbúa

Samkvæmt tímaáætlun í frummatsskýrslunni er ferlið nú 2-3 mánuðum á eftir áætlun en þar er gert ráð fyrir að frummatsskýrslan kæmi fram síðsumars og meðal annars yrði haldinn kynningarfundur þá. Frestur til að geta athugasemdir við skýrsluna er til 28. desember. Samkvæmt tímaáætluninni átti endanlega matsskýrsla að liggja fyrir í byrjun árs 2021 og álit Skipulagsstofnunar á henni í febrúar.

Þóra var að prenta út listana til undirritunar þegar Austurfrétt heyrði í henni og var á leið með þá út í verslun staðarins og menningarmiðstöðina Skaftfell þar sem þeir munu liggja frammi. Hún býst við miklum viðbrögðum bæjarbúa þar sem heitar umræður hafi þegar skapast meðal þeirra á samfélagsmiðlum í gær.

„Ég reikna með að það sé talsverð andstaða við eldið meðal bæjarbúa. Mér fannst tónninn í umræðunum þannig í gær. Það kemur betur í ljós þegar farið verður að skrifa undir listana.“

Frá Seyðisfirði. Háubakkar eru fjærst í myndinni. 


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.