Einstaklingar í sóttkví geta kosið á Seyðisfirði
Aðstöðu til að kjósa fyrir einstaklinga í sóttkví hefur verið komið upp í hafnarhúsinu á Seyðisfirði. Kjörsókn á hádegi í sveitarstjórnarkosningum í nýju, sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi var um 10%.Samkvæmt nýjustu tölum eru 4 einstaklingar í sóttkví á Austurlandi. Í gærkvöldi sendi sýslumaðurinn á Austurlandi frá sér leiðbeiningar um hvernig þeir geta kosið.
Leiðbeiningarnar í heild sinni má sjá á vefnum syslumenn.is. Samkvæmt þeim þarf að hringja í síma 896-4743 til að boða konu sína. Kjósandi keyrir síðan inn í bílskúr tollgæslunnar á Seyðisfirði. Vegna sóttvarna verður óheimilt að opna hurð eða glugga bifreiðar, hvar á að fara út úr henni.
Vegna þessa þurfa kjósendur að hafa með sér blað og penna til að geta skrifað nafn þess sem er kosinn og gera þannig kjörstjóra, sem aðstoðar við atkvæðagreiðsluna, grein fyrir atkvæði sínu. Að auki þurfa kjósendur að hafa með sér persónuskilríki og blað þar sem kennitala kjósanda hefur verið skrifuð með stórum, læsilegum tölustöfum.
Sýslumaður kemur síðan atkvæðinu áfram til yfirkjörstjórnar á Egilsstöðum. Kjósendur eru beðnir að hafa í huga að atkvæðagreiðslan getur tekið nokkurn tíma.
Ekki mega fleiri en einn vera saman í bíl og aðeins í þeim tilvikum sem kjósandi getur ekki keyrt sjálfur. Ef tveir aðilar eru í bílnum þurfa þeir að hafa skilrúm á milli sín til að tryggja leynilega kosningu.
Seyðfirðingar rólegir
Kjörstaðir opnuðu á Egilsstöðum og Borgarfirði klukkan níu í morgun en klukkustund síðar á Seyðisfirði og Djúpavogi. Um hádegi var heildarkjörsókn tæp 10%. Bjarni G. Björgvinsson, formaður yfirkjörstjórnar, segir kjörsókn hafa verið ágæta á Borgarfirði og Djúpavogi, jafna á Fljótsdalshéraði en rólega á Seyðisfirði. Ekki sé hægt að segja fyrr en eftir klukkan fjögur hvort kjörsókn sé frábrugðin því sem hún er vanalega í kosningum.
Inni í tölunni eru ekki utankjörfundaratkvæði en Bjarni segir að þau séu ekki í tölunum enda enn að berast. Eins og Austurfrétt greindi frá í vikunni átti Austfirðingar vandræði með að greiða atkvæði á höfuðborgarsvæðinu og eru dæmi um að þeim hafi verið vísað frá af starfsmönnum sýslumannsins þar sem ekki könnuðust við neinar kosningar.
Bjarni segir að samskiptavandræði milli dómsmálaráðuneytisins og sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hafi orsakað þennan misskilning sem hafi verið leiðréttur um miðja vikuna. Ekki sé annað vitað en síðan hafi kosning þar gengið vel en engar athugasemdir hafa síðan borist yfirkjörstjórn.Utankjörfundaratkvæðagreiðslu lauk í gær.
Kjósendur eru sjálfir ábyrgir fyrir að koma atkvæði sínu austur til talningar. Öruggasta leiðin til þess í dag er með flugi. Seinni áætlunarvél dagsins fer úr Reykjavík klukkan 16:00. Ýmist er hægt að senda með flugfrakt eða biðja aðra farþega að taka umslög með atkvæðum að taka þau austur.
Starfsmenn á flugvellinum á Egilsstöðum eru í sambandi við yfirkjörstjórn og láta vita ef þeim berast umslög merkt henni þannig að þau verða sótt í kvöld. Aðsetur yfirkjörstjórnar er í Menntaskólanum á Egilsstöðum.