Eiríkur Björn: Ég geri ekki ráð fyrir að bjóða mig fram aftur

Eiríkur Björn Björgvinsson, oddviti Viðreisnar í Norðausturkjördæmi, segist vonsvikinn með niðurstöðu flokksins í kjördæminu og segir ljóst að stór hluti kjósenda kjördæmisins vilji litlar breytingar og sætti sig við það ástand sem ríki. Hann býst ekki við því að bjóða sig fram aftur til Alþingis.


Viðreisn var að mælast ágætlega fyrir kosningarnar og margt sem bent til þess að Eiríkur gæti verið á leið á þing. Flokkurinn fékk þó aðeins 5,4% atkvæða í kjördæminu sem er þó töluvert meira en í kosningunum árið 2017. „Niðurstaðan kom á óvart því við fundum fyrir mikilli jákvæði gagnvart framboðinu í kjördæminu og erum þakklát fyrir þann stuðning sem við fengum þó það hafi ekki dugað til að ná inn manni í þetta skiptið. Viðreisn bætti verulega við sig fylgi á landsbyggðinni en flokkurinn er ungur og á eftir að sanna sig enn betur gagnvart íbúum landsbyggðarinnar,“ segir Eiríkur.

Eiríkur segir ljóst að kjósendur kjördæmisins vilji ekki breytingar á því stjórnarfari sem nú ríkir. „Stór hluti kjósenda í Norðausturkjördæmi vill sem minnstar breytingar og sættir sig við þá stöðnun sem þar hefur ríkt.“

Eiríkur Björn hefur verið bæjarstjóri bæði á Fljótsdalshéraði og á Akureyri. Hann hefur þó aldrei áður boðið sig fram fyrir stjórnmálaflokk hvorki í sveitarstjórnarkosningum né Alþingiskosningum. Hann er ánægður með kosningabaráttuna í ár en telur að hann fari ekki aftur í framboð. „Kosningabaráttan var stutt og áhugaverð og að mestu mjög heiðarleg. Ég geri ekki ráð fyrir að bjóða mig fram aftur en ég hafði mjög gaman af því að taka þátt í þessari baráttu og þetta fer í reynslubankann,“ segir Eiríkur að endingu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.