Skip to main content

Ekið aftan á bilaðan bíl á Jökuldalsheiði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. okt 2025 09:51Uppfært 06. okt 2025 09:52

Sex einstaklingar voru fluttir með sjúkrabíl til Egilsstaða eftir umferðarslys á Jökuldalsheiði á áttunda tímanum í gærkvöldi.


Tilkynnt var um slysið klukkan 19:40 í gærkvöldi en það varð í námunda við fornbýlið Hlíðarenda.

 

Samkvæmt tilkynningu sem lögreglan á Austurlandi sendi frá sér í morgun var einum bíl ekið aftan á annan sem var bilaður úti í vegkanti. Þungbúið var á vettvangi og skuggsýnt.

 

Sex einstaklingar voru í bílunum tveimur, fjórir í öðrum en tveir í hinum. Allir voru fluttir með sjúkrabifreið á heilsugæslustöðina á Egilsstöðum. Ekki er vitað hversu alvarleg meiðsl þeirra eru.

 

Málið er í rannsókn en vinna á vettvangi stóð til klukkan eitt í nótt. Veginum var lokað um tíma vegna þessa.

 

Helgin var annars róleg hjá lögreglunni á Austurlandi. Engin útköll voru vegna hvassviðris sem gekk yfir fjórðunginn á laugardag.