Ekkert mikilvægara en félagslegur stuðningur í áföllum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. feb 2025 16:13 • Uppfært 17. feb 2025 16:13
Hvers konar áföll koma misjafnlega fram í samfélögum eftir stærð þeirra. Meiri líkur eru á að fólk þjappi sér saman í minni samfélögum. Vísbendingar eru um að áföll erfist milli kynslóða í samfélagi.
„Kostirnir eru fyrst og fremst að í fámenni er oftast nær miklu meiri nánd á meðal íbúanna og meiri félagslegur stuðningur. Á flestum þeim stöðum vita allir hvað gerðist á skömmum tíma og sterkari líkur á að fólk þjappi sér saman og þá ekki síst ef fólk verður beinlínis vitni að hamförum eða öðru slíku sem áhrif getur haft. Stuðningur fólks er meiri og það stendur þéttar saman, sem er gríðarlega mikilvægt þegar áföll dynja yfir.
Það er eiginlega ekkert mikilvægara en félagslegur stuðningur við slíkar aðstæður, þó sá hluti sé æði oft vanmetinn. Gallinn er hins vegar sá, og þá sérstaklega ef afleiðingarnar fara að verða alvarlegar, að þá gæti komið fram skortur á sérfræðingum sem hægt er að leita til. Það eru sem sagt mun færri slíkir á fámennum svæðum og hugsanlega í töluverðri fjarlægð frá hverjum stað líka.“
Þetta segir Sigrún Sigurðardóttir, prófessor við Háskólann á Akureyri, sem lengi hefur sérstaklega rannsakað áhrif áfalla á íbúa fámennra byggðarlaga. Hún þekkir þau vel, verandi alin upp á Vestfjörðum og hefur meðal annars rannsakað áföllin af snjóflóðunum á Súðavík og Flateyri um miðjan tíunda áratuginn.
Þegar samfélagið allt gengur í gegnum áfall
„Það hjálpaði eftir Súðavíkurflóðið að þar voru allir að ganga í gegnum sama áfallið og við þær aðstæður verður stuðningur meiri en annars. Þá vilja allir leggja sitt af mörkum og það ríkir mikill náungakærleikur. Nú vil ég ekki alhæfa en slík viðbrögð eru flóknari í stærri samfélögum eða borgum. Sjálf hef ég líka búið í Reykjavík og finn alveg mun á viðbrögðum í kringum mig þegar eitthvað gerist. Hjálpin sem er í borginni er mun meiri; stórt geðheilsuteymi, fjölmargir prestar fyrir utan miklu fleiri aðra viðbragðsaðila.
Auðvitað er líka hægt að ofgera því fólki þegar mjög mikið gengur á. Fólk getur ekki endalaust tekið við. En í þeim tilfellum þegar frá líður, að fólk fer að finna þörf á meiri áfallavinnu, þá geta afleiðingar verið alvarlegri enda eykst þá þörfin á lengri tíma meðferð sem hugsanlega er lítið í boði á fámennum svæðum landsins, nema hugsanlega í gegnum fjarskiptabúnað.
Það sem gæta þarf sín sérstaklega á er hve langvarandi afleiðingar geta verið lúmskar ef engin er aðstoðin. Fólk fer gjarnan að halla sér að flöskunni eða finnur sér aðrar miður góðar leiðir til að líða betur. Hjónaskilnuðum fjölgar og alls konar fjölskylduvandamál koma upp á yfirborðið. Þunglyndi getur orðið yfirþyrmandi með tilheyrandi kvíða og röskunum. Fram geta komið langvarandi verkir og heilsuvandamál sem rekja má beint til áfalls eða áfalla en sú tenging blasir ekki alltaf við.“
Kynslóðaáföll
Allra nýjustu rannsóknir fræðafólks hafa sýnt hvernig áföll geta varðveist á milli kynslóða. Slíkt er til dæmis inntak bókarinnar „Líkaminn geymir allt“ eftir geðlækninn Bessel van der Kolk. Íslendingar eiga sín dæmi um sterka fylgni á milli einstaklings sem orðið hefur fyrir áfalli og maka, barna og jafnvel barnabarna viðkomandi með óbeinum hætti.
„Það eru þessar hugsanlegu afleiðingar sem minna er talað um. Samkvæmt síðustu rannsóknum þykir nú sýnt að áföll erfast. Það hefur til dæmis verið sýnt að afkomendur þeirra, sem lentu í gosinu í Eyjum 1973 eða snjóflóðunum í Neskaupstað ári síðar, tengja alveg við slíka atburði og þeir hafa áhrif á þá þó þeir séu annars staðar. Þetta er kallað kynslóðaáföll, en þau geta gengið lengi hjá fjölskyldum sem fyrir verða,” útskýrir Sigrún.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.