Orkumálinn 2024

Ekkert skólahald á Reyðarfirði næstu þrjá daga

Grunnskóli Reyðarfjarðar og Leikskólinn Lyngholt verða lokaðir mánudag, þriðjudag og miðvikudag á meðan verið er að ná utan um útbreiðslu Covid-19 smits á Reyðarfirði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi. Staðan verður endurmetin á miðvikudag þegar niðurstöður úr seinni skimun, sem verður á þriðjudag, liggja fyrir.

Í gær var búið að staðfesta 16 smit í tengslum við skólana. Þau smit eru sögð dreifast víða um skólana og erfiðlega hafi gengið að rekja þau enda snerting þeirra víða.

Fjörutíu sýni voru tekin í bænum í gær. Niðurstaða úr þeim verður kynnt þegar hún liggur fyrir sem vonast er til að verði síðar í dag. Boðið er upp á sýnatöku þar í dag frá 12-13. Þeir sem hafa einhver einkenni eða telja sig hafa verið í samskiptum við smitaðan aðila eru hvattir til að mæta.

Smitrakningarteymi hefur sent frá sér upplýsingar um rétt viðbrögð til þeirra sem eru í sóttkví eða hafa á annan hátt verið útsett fyrir smiti, um það hvaða reglur gilda. Viðbúið er að fleiri bætist í þann hóp á næstunni, en þar eru um 200 manns. Á www.covid.is má finna frekari upplýsingar um reglur sem gilda um sóttkví og einangrun.

„Við erum að sigla í gegnum svolítið öldurót þessa stundin en sjáum til lands. Það mun þó reyna á okkur næstu daga - gætum því öll fyllstu varúðar og höldum áfram að feta okkur saman að lokatakmarkinu,“ segir í tilkynningunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.