Ekki alltaf hægt að uppfæra upplýsingar um færð jafn óðum

Aðstæður til hálkumyndunar geta komið upp snarlega og án þess að eftir þeim takist eða upplýsingar um færð hjá Vegagerðinni séu uppfærðar.

Að haustið sé still og bjart er fallegt en það hefur líka sína ókosti. Ísing getur myndast á vegum í rökkrinu sem leiðir til þess að hált er á vegum á morgnana.

Þannig var staðan í morgun og er Austurfrétt kunnugt um vegfarendur sem varð bókstaflega hált á svellinu þótt ekki hafi orðið óhöpp. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu bárust engar upplýsingar um óhöpp í morgun.

Í morgun voru hins vegar leiðir á láglendi merktar greiðfærar í kortum Vegagerðarinnar og þar aðeins varað við mögulegum hálkublettum á fjallvegum.

Í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Austurfréttar, um hvernig eftirliti sé háttað og hví ekki hafi verið varað við ísingu á láglendi í morgun, kemur fram að eftirliti með færð á veturna sé bæði sinnt af starfsmönnum þjónustumiðstöðva og vaktstöðvum.

Til að afla upplýsinga um færð er oft notuð fjarvöktun, það er eftirlit með vefmyndavélum og veðurstöðum ásamt upplýsingum tengilliða til að fylgjast með færð. Þá fara starfsmenn þjónustustöðva í eftirlitsferðir ef tilefni þykir til með tilliti til veðurspár auk þess sem þeir tilkynna færð eftir því hvar þeir eru á ferðinni hverju sinni. Stundum er þó ekki stöðugt aksturseftirlit í gangi.

Aðstæður til hálkumyndunar geta þó komið upp án þess að eftir þeim sé tekið með góðu móti og því getur komið fyrir að færðarskráning sé ekki uppfærð samstundis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.